Bóluefnið Comirnaty frá BioNTech og Pfizer er á leið til landsins en það er væntanlegt eftir helgi. Tryggðir hafa verið 170 þúsund skammtar sem duga fyrir 85 þúsund manns og eru fyrstu tíu þúsund skammtarnir á leiðinni.
Í tilkynningu kemur fram að lagt hafi verið af stað með bóluefnið frá verksmiðjunni í Puurs í Belgíu þaðan sem dreifa á því til landa í Evrópu, þar með talið hingað til lands.
Bólusetningar hefjast svo hér á landi á þriðjudag þegar starfsfólki bráðamóttöku í Fossvogi, bráðamóttöku barna, gjörgæsludeilda og Covid-19-göngudeildar verður boðin bólusetning.
Auk þeirra verður íbúum á hjúkrunarheimilum boðin bólusetning þegar fyrsta sendingin kemur til landsins.