„Ég skil þetta bara ekki“

Rögnvaldur Ólafsson aðalvarðstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Rögnvaldur Ólafsson aðalvarðstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Ljósmynd/Lögreglan

Rögn­vald­ur Ólafs­son, aðal­varðstjóri hjá al­manna­vörn­um, seg­ir fyrstu viðbrögð sín við frétt­um af rúm­lega 100 manna messu­haldi í Landa­kots­kirkju vera dep­urð og sorg. Hann seg­ist ekki hafa heyrt af öðrum dæm­um um mögu­legt brot á sótt­varn­a­regl­um í gær.

Þótt smit­töl­ur dags­ins hafi verið nokkuð já­kvæðar, en þrjú smit greind­ust í gær, seg­ir Rögn­vald­ur að erfitt sé að vera of bjart­sýnn, enda hafi það sýnt sig að fólk fari síður í skimun um helg­ar og á frí­dög­um og því geti töl­urn­ar verið nokkuð skakk­ar. Seg­ir hann að ef smit hafi farið af stað við jóla­haldið megi gera ráð fyr­ir að fyrstu merki þess fari að koma í ljós milli jóla og ný­árs þótt heild­aráhrif­in komi ekki í ljós fyrr en eft­ir tæp­lega tvær vik­ur.

Uppá­kom­ur sem þessi á sama tíma og marg­ir færa mikl­ar fórn­ir

Rögn­vald­ur seg­ir að með til­vik Landa­kots­kirkju sé hans upp­lif­un svipuð og þegar hann hafi bannað börn­un­um sín­um að gera eitt­hvað en þau óhlýðnast. „Fyrstu viðbrögð eru dep­urð og sorg,“ seg­ir hann og bæt­ir við: „Ég skil þetta bara ekki. Við erum búin að segja þetta skil­merki­lega og marg­ir eru að færa mikl­ar fórn­ir. Fólk er eitt um jól­in og svo fram­veg­is,“ seg­ir Rögn­vald­ur.

Þegar mbl.is ræddi við Rögn­vald hafði hann ekki fengið upp­lýs­ing­ar um það hvort sektað hafi verið vegna brota á sótt­varn­a­regl­um í gær eða á síðustu dög­um.

Rögn­vald­ur seg­ist hafa mikl­ar áhyggj­ur af hátíðunum og að bylgja muni fylgja í upp­hafi næsta árs. Seg­ir hann að þó að sótt­varna­mál hafi gengið nokkuð vel það sem af er í des­em­ber hafi hann veru­leg­ar áhyggj­ur af því að mánuður­inn muni skila fleiri smit­um, hvort sem þau komi fram milli jóla og ný­árs eða eft­ir nýár.

Passi grímu­notk­un, spritt­un og að detta ekki á náið trúnó

Seg­ist hann sér­stak­lega hrædd­ur um ára­mót­in, enda sé þá oft meira áfengi haft um hönd. „Þegar áfengi er haft við hönd falla höml­urn­ar,“ seg­ir hann og bæt­ir við að þá gleym­ist oft grímu­notk­un, spritt­un og að „fólk geti dottið á trúnó með 10 cm fjar­lægð“. Seg­ir hann að ef fólk gleymi sér í gleðinni komi veir­an í bakið á þjóðinni. Veir­an sé lúmsk og þeir sem dreifi henni viti sjaldn­ast af því.

Áhyggj­ur af ann­arri bylgju um miðjan janú­ar

„Ég er skít­hrædd­ur um að þetta skili okk­ur aukn­ingu smita,“ seg­ir Rögn­vald­ur. „Það gæti orðið önn­ur bylgja um miðjan janú­ar ef við pöss­um okk­ur ekki.“ Nefn­ir hann sér­stak­lega að fólk þurfi að hafa var­ann á og leyfa vin­um og ætt­ingj­um að njóta vaf­ans ef fólk finni fyr­ir minnstu ein­kenn­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert