Lítil virkjun á Folaldahálsi

Fyrirhuguð virkjun væri á Folaldahálsi milli Hveragerðis og Grafnings.
Fyrirhuguð virkjun væri á Folaldahálsi milli Hveragerðis og Grafnings. Árni Sæberg

Fyrirtækið Suðurdalur ehf. áformar að koma upp lítilli gufuaflsvirkjun á Folaldahálsi við Hengilssvæðið, í landi Króks í Grafningi. Grímsnes- og Grafningshreppur hefur auglýst skipulags- og matslýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag fyrir jörðina.

Eigendur jarðarinnar Króks, undir nafni Suðurdals ehf., létu bora rannsóknarholu á Folaldahálsi, syðst í landi sínu, á árinu 2018, í þeim tilgangi að kanna hvort þar væri nýtilegur jarðhiti til upphitunar fyrir sumarhúsabyggð á jörðinni. Fram kemur í skipulagslýsingunni að prófanir hafi leitt í ljós að jarðhitavökvinn er þurr gufa og hentar ekki vel til öflunar á heitu vatni. Hins vegar henti jarðhiti í þessu formi mjög vel til framleiðslu raforku, meðal annars fyrir sumarhúsabyggð og aðra mögulega starfsemi í landi Króks. Einnig er sá möguleiki talinn fyrir hendi að selja rafmagn inn á dreifikerfi Rarik.

Rýri ekki verndargildi

Miðað er við 3,9 MW gufuaflsvirkjun. Gert er ráð fyrir að bora þurfi tvær aðrar borholur og koma upp gufuskilju, gufuháf áamt gufulögnum og öðrum búnaði virkjunar auk stöðvarhúss og kæliturna. Ef til kemur verður lagður jarðstrengur niður í byggðina. Aðkomuvegur er hins vegar frá Hellisheiði.

Kort/mbl.is

Folaldaháls gengur út úr Kyllisfelli og er syðst í landi Króks, alveg við sveitarfélagamörk Ölfuss. Sunnan við mörkin eru virkjanir Orku náttúrunnar. Í skipulagslýsingu kemur fram að iðnaðarsvæðið sem verið er að skilgreina undir virkjun nær ekki inn á svæði á náttúruminjaskrá. Umhverfisstofnun bendir á í umsögn að þrátt fyrir það kunni framkvæmdin að hafa áhrif á verndargildi svæðanna og bendir á mikilvægi þess að skipulagsbreytingin rýri ekki verndargildi þeirra. Vekur Umhverfisstofnun athygli á því að unnið er að friðlýsingu Reykjatorfunnar í Ölfusi, þar með töldum Grændal og Reykjadal. Síðarnefndi dalurinn er vinsælt göngusvæði og Grændalur liggur samsíða honum og er að mestu ósnotið land. Hann endar skammt sunnan við fyrirhugað virkjanasvæði.

Grændalur í verndarflokki

Fyrirtækið Sunnlensk orka, dótturfélag Rarik, hóf rannsóknir á jarðhita í Grændal fyrir um áratug. Dalnum var raðað í verndarflokk í rammaáætlun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert