Lögreglan taldi 120-130 manns í kirkju

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af fjölmenni í kirkju í miðborginni á ellefta tímanum í gærkvöldi. Tilkynnt hafði verið um hugsanlegt brot á sóttvarnarlögum og þegar lögreglumenn komu á vettvang töldu þeir um 50 manns sem voru að ganga frá kirkju og um 70-80 manns inni í kirkjunni. Samtals höfðu því verið á annað hundrað manns í kirkjunni. Tekið er fram að bæði hafi verið um börn og fullorðna að ræða.

Ekki er tekið fram hvaða kirkju er um að ræða, aðeins að hún sé í póstnúmeri 101.

Í dagbók lögreglu kemur fram að sumir hafi verið með andlitsgrímu, en aðeins einn sprittbrúsi sjáanlegur innandyra. Þá hafi sæti og bekkir kirkjunnar verið þétt skipuð og engin leið að tryggja tveggja metra reglu. Ræddi lögreglan við sóknarprest og benti á hvað betur mætti fara.

Þetta er annar dagurinn í röð þar sem lögregla greinir frá mögulegum sóttvarnabrotum í dagbók lögreglunnar, en í gær var greint frá fjölda fólks í Ásmundarsal á Þorláksmessukvöldi. Meðal gesta þar var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Í núgildandi samkomutakmörkunum kemur fram að í gildi séu tveggja metra nálægðarmörk á milli fólks sem er ekki í nánum tengslum. Þetta eigi meðal annars við um vinnustaði, kennslu, fyrirlestra og kirkjuathafnir. Þar sem ekki sé unnt að tryggja tveggja metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum sé grímuskylda. Hún eigi þó ekki við börn fædd 2005 og síðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka