Gular viðvaranir í gildi á öllu landinu

Gul viðvörun um allt land.
Gul viðvörun um allt land. Kort/Veðurstofa Íslands

Í dag er útlit fyrir norðan hvassviðri eða storm á öllu landinu. Með norðanáttinni fylgir úrkoma sem einkum er bundin við norðan- og austanvert landið. Fram eftir degi verður úrkoman á formi rigningar eða slyddu á láglendi og hiti ofan frostmarks, en til fjalla verður hríðarveður, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands. 

Undir kvöld er spáð að veður fari kólnandi og úrkoman á láglendi færir sig yfir í snjókomu eða slyddu. Á sunnanverðu landinu í dag verður skýjað og úrkomulítið og hiti 1 til 5 stig, en búast má við snörpum vindstrengjum við fjöll og vindhviðurnar geta verið varasamar. Gular viðvaranir eru í gildi á öllu landinu í dag.

Á mánudag er áfram norðanátt í kortunum, víða strekkingur að styrk, en hvassviðri austanlands. Það gengur á með éljum á Norður- og Austurlandi, en léttskýjað um landið sunnan- og vestanvert. Þá kólnar í veðri og er spáð frosti á bilinu 2 til 8 stig á morgun. Annað kvöld lægir síðan svo um munar á vestanverðu landinu, en austanlands blæs áfram fram á þriðjudag.

Veðurhorfur á landinu næstu daga 

Á mánudag:
Norðan 8-13 m/s, en 13-18 austanlands. Dálítil él á Norður- og Austurlandi, en léttskýjað um landið sunnan- og vestanvert. Frost 2 til 8 stig.

Á þriðjudag:
Breytileg átt 3-8, en norðan 10-15 allra austast á landinu. Dálítil snjókoma norðvestantil, en þurrt í öðrum landshlutum. Frost 2 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

Á miðvikudag og fimmtudag (gamlársdagur):
Breytileg átt 3-8. Skýjað með köflum og líkur á dálitlum éljum í flestum landshlutum. Áfram kalt í veðri.

Á föstudag (nýársdagur):
Suðvestanátt með lítilsháttar slyddu eða rigningu á vestanverðu landinu og hita yfir frostmarki, en bjart austantil og minnkandi frost.

Á laugardag:
Vestlæg átt með rigningu eða slyddu, en þurrt austanlands. Hiti 0 til 6 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert