Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sendir Helgu Völu Helgadóttur, þingmanni Samfylkingar, og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmanni Pírata, tóninn í pistli sem hann birti á Facebook fyrr í dag.
Segir hann að þingmennirnir tveir „noti hvert tækifæri til að skapa upplausn“. Þá hafi þær ekkert fram að færa í pólitík auk þess sem þær biðjist aldrei velvirðingar á gerðum sínum og orðum.
„Tvær síðustu færslur mínar voru hins vegar um stjórnmálamenn sem hafa lítið sem ekkert fram að færa í pólitík og nota því hvert tækifæri til að skapa upplausn. Sjálfir hafa þeir ekki verið tilbúnir að taka ábyrgð á gerðum sínum og orðum. Dettur ekki í hug að biðjast fyrirgefningar, ekki einu sinni velvirðingar, en alltaf fyrstir upp á dekk til að ráðast á aðra sem verður á í messunni. Og til að kóróna allt trúa að þeir séu boðberar heiðarlegra stjórnmála,“ segir m.a. í pistlinum.
Vísar Brynjar til fyrri færslu á Facebook þar sem hann lýsir búðarferð sinni á kaldhæðnislegan hátt. Sjá má færsluna hér að neðan, en færa má rök fyrir því að hann sé í henni að verja gjörðir Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
Bjarni hafði áður sést í samkomu á Þorláksmessu, sem leyst var upp af lögreglu. Baðst Bjarni afsökunar á því. Hins vegar hafa þingmenn, þar á meðal Þórhildur Sunna, krafist þess að ráðherrann segi af sér.