Flugvélin með bóluefni við kórónuveirunni er lent á Keflavíkurflugvelli. Vélin lagði af stað frá Amsterdam í Hollandi rétt rúmlega sjö í morgun og er með 10 þúsund skammta af bóluefni lyfjaframleiðandans Pfizer um borð.
Um leið og vélin lendir verður bóluefninu komið í vöruhús fyrirtækisins Distica í Garðabæ sem annast dreifingu þess hér innanlands. Þar verða viðstödd Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Alma Möller landlæknir.
„Þar verður bóluefnið þó ekki geymt í langan tíma enda er fyrirhugað að hefja bólusetningu strax á morgun,“ segir Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, við mbl.is.
Starfsmenn í framlínustörfum á Landspítalanum verða bólusettir á morgun með viðhöfn og sömuleiðis fólk á hjúkrunarheimilum.
„Það er búið að skipuleggja þetta allt saman. Við förum eftir forgangsröðun embættis landlæknis, fyrst er fólkið inni á hjúkrunarheimilunum og ákveðnir framlínustarfsmenn,“ sagði Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is í gær.