Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í Kastljósi í dag að hann hefði ekki brotið sóttvarnarlög.
Samkvæmt dagbók lögreglunnar var Bjarni viðstaddur samkvæmi í Ásmundarsal á Þorláksmessukvöld sem stöðvað var af lögreglu vegna brota á sóttvörnum.
„Ég þáði léttvín þetta kvöld og hefði ekki verið í ökuhæfu ástandi en ég var aldrei staddur í neinu partíi,“ sagði Bjarni Benediktsson í Kastljósi í kvöld spurður út í drykkju í samkvæminu.
Bjarni tók ekki undir það að tíu manna samkomutakmörk hefðu átt að gilda í Ásmundarsal umrætt kvöld heldur væri Ásmundarsalur verslun með listaverk og vísaði í tilkynningu eigenda salarins. „Fólk var þarna að kaupa listaverk,“ sagði Bjarni.
„Það var ekkert fjölmenni í húsinu, hvorki í salnum uppi né annars staðar í húsinu þegar ég mætti á staðinn [...] Við erum sammála um að við höfum verið þarna í um það bil korter, ég bara stend við það, það er okkar viðmið og upplifun. Á þeim tíma hafi greinilega fjölgað svolítið í salnum,“ sagði Bjarni.
„Ég braut ekki sóttvarnalög með því að mæta á sölusýningu á Þorláksmessu sem var opin,“ sagði Bjarni.