Viðræður sóttvarnalæknis og Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, við lyfjafyrirtækið Pfizer hefjast í vikunni. Þeir félagar munu þar reyna að fá stjórnendur fyrirtækisins til að flýta afhendingaráætlun fyrir Ísland svo að bólusetja megi allt samfélagið á stuttum tíma og ná hér hjarðónæmi.
Þótt Íslendingar hafi þegar tryggt sér 170.000 skammta af bóluefni Pfizers er að óbreyttu nokkur bið eftir að það komi allt til landsins, en aðeins er von á 3-4.000 skömmtum af bóluefninu í hverri viku út mars. Ekkert liggur fyrir um afhendingu eftir þann tíma.
Í samtali við mbl.is segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að viðræðurnar séu ekki hafnar en þær muni hefjast í vikunni. Hugmyndin sé ekki endilega að fá að kaupa meira bóluefni heldur fá það afhent fyrr til ákveðinna rannsókna.
Bóluefni Pfizer er sennilega með eftirsóttustu vörum á jarðkringlunni um þessar mundir og ljóst að eftirspurn er margföld á við framboð. En hvers vegna ætti Pfizer að hafa áhuga á því að senda meira bóluefni hingað frekar en annað?
„Ég held að svona fasa-4-rannsókn, eftir að bóluefni er komið á markað, svari mjög mörgum nauðsynlegum spurningum sem eru mjög verðmætar fyrir fyrirtækið og mörg lönd sem eru að bólusetja,“ segir Þórólfur.
Þetta er meðal þeirra spurninga sem Þórólfur telur að væri hægt að svara með fjöldabólusetningum hér á landi, og þær myndu reynast verðmætar ekki aðeins fyrir fyrirtækið heldur heiminn allan.
Telur Þórólfur að Íslendingar séu í sterkri stöðu til að rannsaka þetta. „Við erum með mjög sterka innviði, við fylgjumst með öllum hlutum í tengslum við þessa bólusetningu, við erum með mjög góða skráningu og höldum utan um allar nauðsynlegar upplýsingar um þá sem eru bólusettir og óbólusettir, faraldurinn og raðgreiningu. Það er engin þjóð sem raðgreinir eins mikið og við. Við höfum alla burði til að gera þessa rannsókn og svara þessum mikilvægu spurningum,“ segir Þórólfur.