„Klárlega of margir í fréttamannahólfinu“

Myndin sýnir hluta, en þó ekki alla viðstadda í öðru …
Myndin sýnir hluta, en þó ekki alla viðstadda í öðru sóttvarnahólfinu. Auðvelt að telja upp í tíu. Allir báru þó grímu nema rétt til að taka viðtöl. mbl.is/Kristinn Magnússon

Boðað var til blaðamannafundar í húsakynnum dreifingarfyrirtækisins Distica í Garðabæ í dag í tilefni af komu fyrstu skammtanna af bóluefni til landsins. Vistödd voru þríeyki almannavarna, heilbrigðisráðherra, starfsmenn Distica svo og hópur fréttamanna, ljósmyndara og tökumanna.

Það vakti athygli einhverra að svo virtist sem fjöldi viðstaddra væri töluvert yfir þeim fjöldatakmörkunum sem kveðið er á um í sóttvarnareglugerð. Samkvæmt reglugerðinni mega almennt aðeins tíu manns koma saman í sama rými, þótt undantekningar séu fyrir skólastarf, verslanir og ýmsa menningarviðburði.

Húsinu var skipt í tvennt með keðju. Öðrum megin voru embættismenn og fulltrúar Distica, hinum megin fréttamenn, ljósmyndarar og myndatökumenn frá minnst fjórum fjölmiðlum auk nokkurra annarra starfsmanna Distica og vopnuðum sérsveitarmönnum.

Taldi blaðamaður minnst fjörutíu manns í húsinu, þar af meirihluta þeirra þeim megin keðjunnar sem embættismenn voru ekki.

„Það eru margir hérna inni, það er hárrétt hjá þér,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, spurður út í fjöldann á vettvangi. „Þess vegna er mjög mikilvægt að allir séu með grímur til dæmis, og séu sem styst hér inni,“ bætti hann við en viðstaddir báru einmitt allir grímu nema mögulega rétt þegar þeir brugðu sér í viðtal.  

„Við vorum ekki mörg,“ sagði Þórólfur og vísaði til fjöldans hans megin við sóttvarnalínuna. „En það kom mér á óvart hvað þið fjölmiðlamenn eruð margir. Það eru klárlega of margir í fréttamannahólfinu.“

Það skal þó tekið fram að fjölmiðlamenn mættu allir eftir að hafa fengið boð frá heilbrigðisráðuneytinu og ekki var að sjá að fleiri væru sendir á vettvang en nauðsynlegt er, þ.e. fréttamaður, upptökumaður og í einhverjum tilfellum ljósmyndari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert