Faraldur kórónuveirunnar hefur sett allt úr skorðum á Íslandi eins og alls staðar í heiminum. Nú er bólusetning að hefjast og þá vaknar sú spurning hvort hægt verði að bjarga þorrablótunum á næsta ári?
„Þetta er allt í mikilli óvissu, því miður,“ segir þorrakóngurinn Jóhannes Stefánsson í Múlakaffi, þegar blaðið leitaði álits hans. Jóhannes hefur verið veitingamaður í meira en 40 ár og boðið upp á þorramat öll árin.
Jóhannes og hans fólk hafa í áranna rás þjónustað íþróttafélög og félagasamtök sem haldið hafa fjölmenn þorrablót, og skipta þau þúsundum. Það fjölmennasta var í Kópavogi í fyrra, 2.600 manns, sem er heimsmet að sögn Jóhannesar. Hann hefur verið í sambandi við stærstu félögin undanfarið.
„Það ætla allir að halda þorrablót, enda er þetta gífurlega mikilvæg tekjulind,“ segir Jóhannes í Morgunblaðinu í dag. „Menn hafa verið að skoða það að halda blótin jafnvel í apríl í þeirri von að búið verði að bólusetja nógu marga þá. Aðrir eru að hugsa um fjarblót en þetta á allt eftir að koma í ljós.“