Um 65% landsmanna hlökkuðu til jólanna. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar Gallups, sem framkvæmd var á aðventunni, en niðurstöður hennar voru birtar í dag. Þá kváðust 5% kvíða jólunum, 17% bæði hlakka til og kvíða þeim en 14% hvorki hlakka til né kvíða.
Niðurstöðurnar eru keimlíkar fyrri mælingum, en í fyrra sögðust til að mynda 66% hlakka til jólanna. Konur eru líklegri til að hlakka til jólanna en karlar, en 68% kvenna samanborið við 62% karla sögðust hlakka til.
Þá er áberandi munur á niðurstöðum eftir aldri. Yngsti aldurshópurinn, 18-29 ára hlakkaði áberandi minnst til jóla. Í þeim aldursflokki sögðust 52% hlakka til, en 26% bæði hlakka til og kvíða jólunum.
Tilhlökkunin eykst með hækkandi tekjum. Þannig segjast aðeins 46% þeirra með fjölskyldutekjur undir 400 þúsund krónum hlakka til jóla, en 14% kvíða þeim og 19% gera hvort tveggja.
Í tekjuhæsta hópnum, með fjölskyldutekjur yfir 1.250 þúsund krónur, segjast 80% aftur á móti hlakka til jólanna, en aðeins 3% kvíða þeim og 9% gera hvort tveggja.
Alls sögðust 89% þátttakenda eiga fyrir jólahaldinu þetta árið, sem er svipað hlutfall og í fyrra, 90%.
Þátttakendur voru einnig spurðir hvort sóttvarnareglur hefðu áhrif á jólahald þeirra. Sögðu 20% að þær hefðu mjög mikil áhrif, 38% frekar mikil áhrif, 19% hvorki mikil né lítil, 16% frekar lítil og 6% mjög lítil.
Þá sögðu 79% aðspurðra að þeir myndu hitta fleira fólk yfir jólin ef ekki væri fyrir kórónuveirufaraldurinn.
Könnunin var framkvæmd dagana 14.-27. desember á netinu. Úrtak var 1.600 manns, valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallups. Þátttökuhlutfall var 51,3%.