24% af farþegafjöldanum

Tómlegt var oft um að litast í Leifsstöð á árinu.
Tómlegt var oft um að litast í Leifsstöð á árinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrstu ellefu mánuði ársins sem nú er að líða komu samtals 586.007 farþegar til landsins um Keflavíkurflugvöll. Til samanburðar komu 2.427.282 farþegar sömu leið til landsins á sama tímabili á síðasta ári.

Farþegafjöldinn nú nam því rúmlega 24% af fjöldanum á þessum ellefu mánuðum á síðasta ári.

Þetta má ráða af þeim tölum sem Isavia ohf. birtir á vef sínum.

Ljóst er að þessa fækkun má rekja til faraldurs kórónuveirunnar og þeirra ferðatakmarkana sem settar voru hér á landi og víðar til að hefta útbreiðslu hans.

Komufarþegar í Leifsstöð.
Komufarþegar í Leifsstöð. mbl.is/Árni Sæberg

1.264 farþegar lentu í apríl

Fæstar voru komurnar til landsins í aprílmánuði, eða aðeins 1.264. Af þeim fjölda var um helmingur tengifarþegar, eða 606 talsins. Til samanburðar komu 174.415 farþegar til landsins í apríl á síðasta ári.

Flestar voru komurnar í febrúar. Þá komu 170.198 farþegar til landsins um Keflavíkurflugvöll. Um 19 þúsund fleiri farþegar lentu á vellinum í febrúar á síðasta ári, eða samtals 199.190.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert