Fleiri komu en kerfið réði við

Sýnataka við Suðurlandsbraut.
Sýnataka við Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Röð myndaðist í dag við gamla Orkuhúsið þar sem sýnataka fer fram á Suðurlandsbraut. Engin sýnataka fór fram í gær. 

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að nokkur uppsafnaður fjöldi síðustu tveggja daga fari í sýnatöku í dag. Röð í sýnatöku hafi þó myndast af öðrum ástæðum. 

„Þetta er bara venjulegur dagur miðað við að það hafi ekki verið tekin sýni í gær, tvöfaldur dagur. Hins vegar varð smá klikkun í boðun, svo það komu fleiri heldur en raunverulega kerfið ræður við,“ segir Óskar. 

„Það getur komið fyrir að það sé eitthvað rangt sett inn í kerfið þegar við erum að ákveða hvað eigi að boða marga, þetta er meðal annars háð því hvað við erum með marga starfsmenn og svoleiðis. Þá varð smá misskilningur í dag, við verðum fljót að greiða úr þessu,“ segir Óskar. 

Engin greindist með veiruna í gær, enda engin sýni tekin. Þrír greindust með veiruna á gamlársdag. Þar af voru tveir í sóttkví. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert