„Klárlega tímamót í okkar baráttu“

„Við getum sagt að við séum að slökkva á núverandi …
„Við getum sagt að við séum að slökkva á núverandi vaktavinnukerfi og kveikja á nýju,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir um það sem koma skal hjá vaktavinnufólki í opinbera geiranum.

Næsta vinnuvika verður allt að fjórum klukkustundum styttri en áður hjá tugþúsundum dagvinnufólks sem vinnur hjá hinu opinbera. Það er vegna þess að ákvæði í kjarasamningum um styttingu vinnuvikunnar í 36 klukkustundir í stað 40 tók gildi í gær, 1. janúar.  

Undirbúningur fyrir styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki er hafinn en sú stytting tekur gildi 1. maí næstkomandi. Sú vinnuvika verður 32 til 36 klukkustunda löng, eftir þyngd vakta.  

„Þetta eru klárlega tímamót í okkar baráttu,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.  

Stytting vinnuvikunnar hefur áhrif á 22.000 félagsmenn BSRB en ákvæðið er einnig að finna í kjarasamningum þeirra sem eru í öðrum stéttarfélögum en starfa hjá ríki, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum. Því snertir styttingin einnig félagsmenn ASÍ, BHM, Félags leikskólakennara og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.  

Munu fylgjast með því að styttingunni verði framfylgt

Sonja segir að BSRB muni hafa eftirlit með því að styttingu vinnuvikunnar sé framfylgt, ásamt öðrum stéttarfélögum. Það er gert í samstarfi við launagreiðendur.  

„Við erum búin að undirbúa þetta í sameiningu, t.a.m. með fræðsluefni. Við höfum fylgt því eftir að það skili sér og svo munum við einnig sjá um eftirfylgni, fylgjast með því hvernig tekst til og að allir hafi meðtekið þær upplýsingar sem þarf til svo að þetta gangi vel upp.“ 

Aðspurð segir Sonja að útfærsla styttingarinnar sé mjög fjölbreytt. 

„Í dagvinnunni var byggt á því að þetta væri hægt án þess að aukinn launakostnaður þyrfti að koma til og fólk lækkaði ekki í launum. Í vaktavinnunni þá þarf aukinn mannskap á móti þar sem það er sólarhringsmönnun þar víða, þannig að það er hluti af ferlinu sem þarf að taka tillit til.“ 

Sonja telur að stytting vinnuvikunnar, sem einnig hefur verið tekin upp á almennum vinnumarkaði að hluta, muni tvímælalaust hafa áhrif á næstu samninga á almennum vinnumarkaði.  

„Við getum sagt að við séum að slökkva á núverandi vaktavinnukerfi og kveikja á nýju,“ segir Sonja um það sem koma skal hjá vaktavinnufólki í opinbera geiranum. 

„Svo sjáum við að það eru stórar kvennastéttir sem eru einkum í hlutastörfum. Þær treysta sér ekki til þess að vinna fullt starf og þá hafa þær núna tækifæri til þess að hækka starfshlutfallið og þannig hækka raunverulega í launum svo þetta er mikið jafnréttismál líka.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert