Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum segir að það komi mjög á óvart að enn séu að koma upp mál á borð við þau sem upp kom í Landakotskirkju. Hann segir að takmarkanir séu öllum erfiðar og sjálfur hafi hann ekki farið varhluta af því og hafi innbyrt óhóflega af súkkulaði frá því faraldur hófst.
Í ljósi tilvika líkum og þeim sem komu upp í Landakotskirkju. Er einhver vinna í gangi um að skýra sóttvarnarreglur lið fyrir lið og þá skilgreina betur hvaða hópar mega gera hvað?
„Við héldum að þetta væri nokkuð skýrt. Kannski er þetta eitthvað sem þarf að skoða,“ segir Rögnvaldur.
Kemur á óvart að svona tilvik eins og í Landakotskirkju komi ennþá upp?
„Já, ég verð að segja það. Ég var mjög hissa þegar ég heyrði af þessu. Ég hafði ekki hugmyndaflug í það að svona væri ennþá í gangi hjá stórri stofnun eins og trúfélagi,“ segir Rögnvaldur.
Í ljósi þess að háværar raddir eru um ósamkvæmni í sóttvarnarlögum. Gerir það starfið ykkar erfiðara?
„Já það gerir það óneitanlega. Sérstaklega ef upplifunin er sú að ekki eru allir að taka þátt í þessu með okkur ,“ segir Rögnvaldur.
Telur hann að efasemdarmenn gætu reynt að horfa til þess árangurs sem náðst hefur. „Í löndunum í kringum okkur er enn verið að herða aðgerðir. Til samanburðar miðaðist síðasta breyting hjá okkur við að létta aðgerðir. Það segir okkur að við séum að standa okkur ágætlega. En ef stórir hópar eru að safnast saman þá fer þetta á flug á engum tíma,“ segir Rögnvaldur.
Á Íslandi hefur rauður litakóði verið í gildi um hríð. Á sama tíma hefur smitstuðull verið lágur undanfarið. Spurður hvenær ástæða þyki til að breyta litakóðanum í vægara hættustig þá bendir Rögnvaldur á því að sóttvarnarlæknir ráði því. „En það hefur verið talað um að við þurfum að fara í gegnum hátíðarnar og sjá útkomuna úr þeim. Fólk var að hittast yfir hátíðarnar auk þess sem margir komu til landsins um jólin. Allt þetta voru vísbendingar um að við værum að fá uppsveiflu. Enn sem komið er erum við hins í ágætum málum. Það mun skýrast betur í lok þessarar viku og í upphafi þeirrar næstu hvernig við komum út úr áramótunum. Þá held ég að hægt sé að skoða það að breyta litakóða eða almannavarnarstigi,“ segir Rögnvaldur.
Hann segir að áskoranir framundan séu að halda þessum árangri áfram. „Við finnum alveg fyrir því að fólki finnst kominn tími til þess að létta svolítið á. Það er skiljanlegt en aftur snýr áskorunin að því að halda árangrinum áfram. Auðvitað eru áskoranirnar ýmsar. Ég er til dæmis búinn að bæta 10-15 kílóum á mig, ég er því ekki að koma vel út úr þessu. Ég veit ekki hvað ég innbyrti mikið af súkkulaði á síðasta ári," segir Rögnvaldur kíminn. „En nú er komið nýtt ár og kominn tími á að taka upp nýja siði,“ segir Rögnvaldur.