Helgi Bjarnason
Fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, telur það koma til greina að stjórnvöld hér veiti bráðaleyfi fyrir notkun nýrra bóluefna vegna kórónuveirunnar. Það hljóti þó að ráðast af því að hægt sé að gera það hraðar en Lyfjastofnun Evrópu tekst.
Bretland, Bandaríkin og fleiri ríki hafa heimilað notkun nýrra bóluefna fyrr en Lyfjastofnun Evrópu. „Það gæti verið mikill ávinningur fyrir okkur Íslendinga að hafa sjálf unnið þá vinnu sem þarf til að taka afstöðu til lyfsins en það hlýtur að reyna á í þessu máli hvort við getum gert það hraðar en evrópska lyfjastofnunin,“ segir Bjarni. Hann segir að hér sé fullhæf stofnun en segist þó ekki vita hvort nægur mannskapur og þekking sé til þessa verks.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag býst Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ekki við að hér á landi fyrirfinnist sú sérfræðiþekking sem þarf til að veita bóluefnum markaðsleyfi.
Bjarni staðfestir að möguleikinn á íslensku bráðaleyfi hafi ekki verið ræddur í ríkisstjórn. Þá hafa flokkar í stjórnarandstöðu kallað eftir umræðu í þinginu um bóluefnin. Forystumenn þeirra gagnrýna skort á upplýsingum, meðal annars um afhendingu keyptra bóluefna.