Aron Þórður Albertsson
„Þetta lítur alveg ótrúlega vel út miðað við aðrar þjóðir í kringum okkur. Það hlýtur að segja manni að okkur gangi vel að taka þátt í þessum sóttvörnum,“ segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands. Vísar hann þar til þróunar kórónuveirufaraldursins hér á landi.
Segir hann að vel hafi tekist að ná böndum á faraldurinn, sem virtist vera á uppleið um miðjan desembermánuð. Þá virðist sem Íslendingar hafi farið eftir aðgerðum stjórnvalda. „Fólk hefur verið að nota grímur og við virðumst vera að fara eftir þessum reglum. Okkur hefur tekist að halda þessu niðri þrátt fyrir að þetta hafi verið á uppleið um tíma.“
Í nágrannalöndum Íslands, þar á meðal Bretlandi og Írlandi, hefur faraldurinn verið á mikilli siglingu. Þúsundir einstaklinga greinast á dag og spítalar eru undir miklu álagi. „Þetta minnir okkur á að faraldurinn getur farið á flug hvenær sem er. Við þurfum að vera vakandi, en það virðist ákveðinn x-faktor hérna sem erfitt er að gera grein fyrir. Vöxturinn í löndunum í kringum okkur er óhugnanlegur,“ segir Thor.
Aðspurður segist Thor hafa ákveðnar áhyggjur af næstu vikum. Þannig geti smitum fjölgað þegar samfélagið fer á fullt eftir jólahátíðina. „Ég hef aðeins áhyggjur af opnun skólanna og því þegar samfélagið fer á fullt. En við höfum lent í því að þetta fari upp og þá náum við því bara aftur niður.“