Þrír nú látist eftir bólusetningu hér á landi

Lyfjastofnun.
Lyfjastofnun. mbl.is/Hjörtur

Þrír sem hafa fengið bólusetningu við kórónuveirunni hér á landi hafa nú látist. Þetta staðfestir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, í samtali við mbl.is. Hún áréttar að ekkert bendi til þess að orsakasamhengi sé milli andlátanna og bólusetninga. Um sé að ræða langveika og háaldraða einstaklinga. Enginn þeirra 1.000 heilbrigðisstarfsmanna sem bólusettir hafa verið hafa fengið alvarlegar aukaverkanir.

„Verðum að gera okkur grein fyrir því að í fyrstu bólusetningu er verið að bólusetja allra veikasta og elsta fólkið. Þetta eru háaldraðir einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma,“ segir Rúna. 

„Við höfum bólusett um eitt þúsund heilbrigðisstarfsmenn og enginn þeirra hefur greint frá alvarlegum aukaverkunum af bólusetningunni, einungis eymsli á stungustað eða eitthvað slíkt.“

Rúna segir einnig að þrátt fyrir að ekkert útlit sé fyrir áðurnefnt orsakasamhengi að þá verði tilfellin engu að síður rannsökuð sem mögulegar aukaverkanir bólusetningarinnar.

Rúna Hauks­dótt­ir Hvann­berg, for­stjóri Lyfja­stofn­un­ar.
Rúna Hauks­dótt­ir Hvann­berg, for­stjóri Lyfja­stofn­un­ar. Ljósmynd/Almannavarnir

Hefðbundin starfsemi Lyfjastofnunar á ís

Nú þegar umræða um bóluefni við kórónuveirunni eru efst á baugi hefur annarri og hefðbundnari starfsemi Lyfjastofnunar verið seinkað. Það kemur fram á vefsíðu Lyfjastofnunar.

„Það er bara hvað sem er,“ segir Rúna spurð um hvernig verkefni verði að bíða á hakanum. 

„Við förum í eftirlit, skráningu á öðrum lyfjum og annað slíkt. Núna auðvitað eru bara allar hendur á dekki í bóluefnamálum.“

Þá segir Rúna spurð um álit á orðum Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að hér á landi standi til að veita bráðaleyfi gegn kórónuveirunni að vald til slíks liggi hjá Lyfjastofnun.

„Það er kveðið á um þetta í lyfjalögum. Þar er til staðar heimild um tímabundna dreifingu bóluefnis áður en markaðsleyfi er gefið út.“

„Það er samt þannig að ef þú ætlar að gefa út bráðaleyfi þá verðurðu að hafa eitthvert bóluefni. Það þýðir ekkert að veita leyfi fyrir bóluefni ef þú hefur síðan ekkert bóluefni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert