„Venjulega hafa tiltölulega fá atkvæði fallið dauð í íslenskum kosningum, í meirihluta tilvika hafa þau verið innan við 2% í áttatíu ára sögu og oftast innan við 4%. Undantekningin er í kosningunum 2013, þá voru það rétt tæplega 12% atkvæða sem féllu dauð,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.
Ólafur ræddi þá stöðu að fylgi stjórnmálaflokka á Íslandi hefur haldist stöðugt í nokkurn tíma og tveir flokkar mælst í kring um 4%. Verði það að veruleika í alþingiskosningum munu 8% atkvæða falla niður dauð.
„Það þarf 50% atkvæða til að ná meirihluta í þinginu ef engin atkvæði eru dauð. Ef hins vegar eins og árið 2013 12% falla dauð, þarftu ekki 50% til að ná meirihluta heldur 44%, þ.e. helminginn af þeim 88% atkvæða sem fá fulltrúa kosna í þingið,“ segir Ólafur.
„Þetta hafði þau áhrif árið 2013 að þá fengu Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn samanlagt um 51% atkvæða en fengu um 60% þingmannanna. Eftir því sem dauðu atkvæðin eru fleiri fjölgar þingmönnum hinna sem komust inn á þing og það þarf lægri tölu til að fá meirihluta,“ tók Ólafur sem dæmi.
Dauð atkvæði hafa ekki áhrif á jöfnunarsæti. Ólafur segir þannig að 8% dauð atkvæði, sé miðað við Þjóðarpúls Gallup sem kom út í dag, sé mjög mikið í sögulegu samhengi.
Taka ber fram að Þjóðarpúlsinn er könnun og rúmir 9 mánuðir eru til alþingiskosninga.