Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist lítið botna í tilkynningu Lyfjastofnunar þar sem greint var frá því að þrír einstaklingar hefðu látist eftir bólusetningu við kórónuveirunni. Í tilkynningunni kom jafnframt fram að ekkert orsakasamhengi væri þar á milli.
„Ég held að þetta hafi verið mjög óvarleg tilkynning frá Lyfjastofnun. Ég bara skil ekki af hverju verið er að gefa þetta út. Við erum í miðju kafi að reyna að fá fólk til að láta bólusetja sig,“ segir Kári og bætir við að augljóslega muni einhverjir úr viðkvæmasta hópi samfélagsins láta lífið.
„Það eru fimm þúsund aðilar bólusettir og þar af eru um fjögur þúsund einstaklingar hluti af elstu og löskuðustu aðilum samfélagsins. Þegar þú bólusetur fjögur þúsund slíka einstaklinga mun ákveðinn hundraðshluti af þeim deyja,“ segir Kári í samtali við mbl.is.
Hann tekur fram að bólusetning við kórónuveirunni muni ekki verja einstaklinga gegn öðrum sjúkdómum. Þá sé ekki orsakasamhengi milli bólusetningar og dauðsfalla.
„Að fá bólusetningu gegn veirunni ver þig ekki gegn öðrum sjúkdómum. Mér finnst harla ólíklegt að þessi dauðsföll tengist á nokkurn hátt bólusetningunni.“