Útgöngubann og metfjöldi sem hefur látist af völdum Covid-19 er meðal þess sem helst ber á góma í fréttum. Á sama tíma heldur kapphlaupið um bóluefnin áfram en von er á að Lyfjastofnun Evrópu samþykki bóluefni Moderna. Ísraelar hafa bólusett 13,5% þjóðarinnar en Bandaríkin innan við 2%.
Öllu hefur verið skellt í lás á Englandi og víðar í Evrópu fjölgar kórónuveirusmitum ört þessa dagana. Í Bandaríkjunum hafa aldrei dáið jafn margir á einum sólarhring af völdum veirunnar og nú að því er segir í samantekt AFP-fréttastofunnar.
Um 86 milljónir jarðarbúa hafa greinst með Covid-19 og af þeim eru 1,8 milljónir látnar. Byrjað er að bólusetja gegn veirunni í Evrópu, Norður-Ameríku og fleiri ríkjum en enn er bólusetning ekki hafin í fjölmörgum ríkjum heims. Ísland hefur gert samninga um kaup á bóluefni fyrir alla þjóðina en ekki er stefnt að því að bólusetja börn sem eru fædd árið 2004 eða yngri né heldur fólk með bráðaofnæmi og þungaðar konur.
Þetta er í þriðja skiptið sem öllu er skellt í lás á Englandi og þar í landi hafa bæði yfirvöld og heilbrigðisþjónustan miklar áhyggjur af stöðu mála á sjúkrahúsum á sama tíma og almenningur er orðinn langþreyttur á samkomubanni og efnahagslegum áhrifum faraldursins.
Vitað er að staðan verður óbreytt fram í miðjan febrúar á Englandi en varað hefur verið við því að þetta ástand geti varað fram í mars.
Danir og Þjóðverjar hafa einnig framlengt og hert sóttvarnaaðgerðir á sama tíma og vaxandi áhyggjur eru af því að Evrópusambandið sé að verða á eftir öðrum þróuðum ríkjum við bólusetningar.
Vonir standa til að bóluefni Moderna hljóti náð fyrir augum sérfræðinganefndar Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn (CHMP) í dag en það er hún sem tekur ákvörðun um hvort veitt verði markaðsleyfi fyrir bóluefni númer tvö hjá stofnuninni við Covid-19. Takmarkaðar birgðir af bóluefni eru helsti farartálminn hjá þjóðum við að hefja bólusetningar af krafti og því til mikils að vinna.
Bretar og Danir hafa sagt að þeir muni láta líða meira en 21-28 daga á milli bólusetninga til þess að geta bólusett fleiri af fyrsta skammtinum en bæði bóluefni Moderna og Pfizer þarf að gefa í tveimur skömmtum. Framleiðendurnir mæla með að ekki líði lengri tími á milli bólusetninga en þrjár vikur. Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) greindu frá því í gær að þeir legðu blessun sína, með þeim fyrirvara að um afar sérstakar aðstæður er að ræða, yfir að fresta því að gefa seinni skammtinn af Pfizer-BioNTech bóluefninu.
Á sama tíma var sérfræðinganefnd WHO, sem ætlaði að rannsaka uppruna farsóttarinnar, stöðvuð af kínverskum yfirvöldum áður en henni tókst að hefja rannsóknir sínar að sögn framkvæmdastjóra WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus. Hann segist vera afar vonsvikinn með að yfirvöld í Kína hafi á síðustu stundu hætt við að leyfa nefndinni að koma til landsins.
Á sama tíma virðist nýtt afbrigði veirunnar sem er bráðsmitandi fara eins og eldur í sinu um heiminn. Í Bandaríkjunum var tilkynnt um 3.936 ný andlát í gær og hafa aldrei áður jafn margir látist af völdum Covid-19 þar í landi á einum sólarhring.
Í Kaliforníu hafa sjúkraflutningamenn í Los Angeles verið beðnir um að sleppa því að flytja sjúklinga sem eiga litla möguleika á að lifa af. Eins að takmarka notkun súrefnis í sjúkrabílum þar sem heilbrigðisþjónustan hefur ekki undan álaginu og súrefnisbirgðir í Los Angeles eru á þrotum.
Líkt og ítrekað hefur komið fram eru smitin flest og dauðsföllin einnig í Bandaríkjunum en þar reiða menn sig alfarið á að bólusetningar geti stöðvað framrás faraldursins. Þar hófust bólusetningar um miðjan desember. Aftur á móti hefur aðeins tekist að bólusetja tæplega 2% þjóðarinnar enn sem komið er. Það er að 4,8 milljónir hafa fengið fyrri af tveimur skömmtum bóluefnis. Í Ísrael er hlutfallið 13,5%. Bólusetningar þar í landi eru aftur á móti gagnrýndar af mannúðarsamtökunum Amnesty International í dag þar sem yfirvöld í Ísrael hafa ekki bólusett Palestínumenn á Vesturbakkanum og á Gaza.
Vegna heimsfaraldursins hefur þurft að aflýsa og fresta mörgum viðburðum í listum og íþróttum. Nú hefur afhendingu Grammy-verðlaunanna verið frestað fram í mars en til stóð að hátíðin færi fram 31. janúar.