„Mig langar að finna friðinn. Mitt hlutverk var að tryggja að það væri til flokkur eins og Píratar sem setti það í forgang að vernda borgararéttindi og fókusera á þær lýðræðisumbætur sem eru mögulegar með nýrri tækni,“ segir Jón Þór Ólafsson í samtali við mbl.is. Jón Þór, þingmaður pírata og formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar, lýsti því yfir í dag að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri í þingkosningunum í haust.
Jón Þór tók fyrst sæti á Alþingi árið 2013 og sat til ársins 2015, þegar hann sagði af sér þingmennsku en strax við upphaf þingsetu sinnar hafði hann lýst því yfir að hann myndi bara sitja hálft kjörtímabil. Hann var síðan aftur kjörinn á þing árið 2016 og hefur setið síðan.
„Þegar ég hætti [árið 2016] mat ég stöðuna rangt. Flokkurinn var ekki orðinn sjálfbær eins og kom síðan í ljós. Flokkurinn náði ekki að halda flugi,“ sagði Jón Þór. Hann bætti því við að ljóst væri að flokkurinn væri orðinn mjög stöndugur í dag. Hann segir starfsfólk flokksins frábært og grasrótina öfluga.
Jón Þór segir mál sem hann lítur á að hann geti kallað árangur í starfi vera að Píratar hafa sett fíkniefnamál á oddinn.
„Við fórum fyrst af stað með fíkniefnastefnuna okkar, sem sagt að fíkniefnamisnotkun er heilbrigðisvandamál. Við settum það á oddinn og komum því í umræðuna,“ segir Jón Þór.
„Þetta er eitt af grundvallarmannréttindamálunum í samfélaginu. Eins og fíkniefnastríðið hefur verið háð þá er fólk, sem er svo óheppið að vera háð ólöglegum fíkniefnum, þriðja flokks borgarar,“ segir Jón Þór. Hann segir fólk sem glímir við fíkn ekki hafa sömu réttindi og aðrir.
Réttarstaða neytanda varðandi húsnæðisskuldir, veiðileyfagjald og kvótamál, meira gagnsæi og aðhald við stjórnvöld og nýja stjórnarskráin eru mál sem Jón Þór nefnir sem hann segir árangur hafa náðst í.
„Mig langar bara í tíma til að hugleiða, og gera ekki neitt. Því þegar ég geri ekki neitt þá fæ ég alltaf einhverjar frábærar hugmyndir,“ segir Jón Þór að lokum. Hann segir þrífast vel í umhverfi þar sem hann lærir nýja hluti og getur miðlað þekkingu. „Læra og kenna,“ segir hann. Hann nefnir nýlega útgefið þingmannaspil sem hann gaf út fyrir jólin sem dæmi um hvernig hann reyni að miðla þekkingu sinni.