Jarðskjálfti 4,1 að stærð á Reykjanesi

Grindavík. Í baksýn er fjallið Þorbjörn.
Grindavík. Í baksýn er fjallið Þorbjörn. mbl.is/Sigurður Bogi

Jarðskjálfti um 4,1 að stærð varð um sex kílómetra norður af Grindavík klukkan 3:15 í nótt, aðfaranótt sunnudags. Skjálftinn fannst vel í nágrenni og hafa tilkynningar borist víðs vegar af Reykjanesi, höfuðborgarsvæðinu og allt vestur frá Borgarnesi. Engar tilkynningar hafa borist um tjón.

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir í samtali við mbl.is að um 150 eftirskjálftar hafi mælst í sjálfvirku kerfi Veðurstofunnar, sem þyki eðlilegt fyrir skjálfta af þessari stærðargráðu. Skjálftavirknin hafi þó minnkað síðan og flestir eftiskjálftarnir séu undir tveimur að stærð.

Skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesinu frá því í lok árs 2019 ásamt landrisi sem rakið er til kvikusöfnunar. Elísabet segir að skjálftavirknin komi í bylgjum og hafi upptök þeirra færst til á skaganum. Tiltölulega rólegt hafi þó verið yfir svæðinu síðustu vikur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert