„Reikningsdæmi sem ég skil ekki“

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Ljósmynd/Almannavarnir

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir ólíklegt að nokkur muni velja 14 daga sóttkví við komuna til landsins eftir að þeir sem það velja verða skyldaðir í farsóttarhús. Það kemur honum á óvart þegar fólk velur 14 daga fram yfir fimm daga sóttkví og segir hann um að ræða reikningsdæmi sem hann skilji ekki. 

Hingað til hefur fólk getað valið hvort það fari í tvær sýnatökur með fimm daga sóttkví á milli við komuna til landsins eða 14 daga sóttkví. Fáir hafa valið síðarnefnda kostinn en sóttvarnalæknir lagði til við heilbrigðisráðherra að allir sem hann veldu yrðu skyldaðir í farsóttarhús. Útlit er fyrir að heilbrigðisráðherra samþykki það. 

Ólíklegt að nokkur muni velja dvöl í farsóttarhúsi

Gerið þið ráð fyrir að færri muni velja 14 daga sóttkví eftir að þessi breyting verður á landamærum? 

„Mér finnst það ekki ólíklegt og það kemur í raun og veru á óvart að þetta skuli enn valið í dag. Mér finnst afar ólíklegt að nokkur muni velja þetta hér eftir. Ég alla vega yrði mjög hissa,“ segir Rögnvaldur í samtali við mbl.is.

Það vekur furðu hans að nokkur maður skuli heldur vilja 14 daga sóttkví en tvær sýnatökur með fimm daga sóttkví á milli.

„Maður skilur ekki hver velur að fara í 14 daga sóttkví þegar hann hefur möguleika á að vera í fimm daga. Þetta er reikningsdæmi sem ég skil ekki,“ segir Rögnvaldur. 

Undirbúningur fyrir framkvæmdina á því að skylda fólk í farsóttarhús er nú í gangi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert