Sjálfstæðisflokkurinn stærstur en fylgið dalar

Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylgi Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Miðflokksins og Framsóknar jókst á milli könnunar MMR í lok nóvember og þeirrar sem lauk í dag. Fylgi Sjálfstæðisflokksins, Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands minnkaði. Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 50,9%, tæpu prósentustigi meira en við síðustu mælingu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá MMR.

Sjálfstæðisflokkurinn mældist með mest fylgi stjórnmálaflokka á Alþingi eða 24,4%. Það er tæplega þremur prósentustigum minna en við síðustu mælingu MMR sem framkvæmd var undir lok nóvember 2020.

Fylgi Samfylkingarinnar jókst um tæp tvö prósentustig og mældist 15,6% en fylgi Pírata lækkaði um tæp tvö prósentustig og mældist 12,3%.

Vinstri græn, Miðflokkur og Framsókn bæta við sig

Fylgi Vinstri grænna jókst um rúmlega þrjú prósentustig og mældist 10,9%, fylgi Framsóknarflokksins jókst um eitt og hálft prósentustig og mældist 9,1% og fylgi Miðflokksins jókst um tæp tvö prósentustig og mældist 8,6%.

Fylgi Viðreisnar mældist 8,8% en 9,5% í síðustu könnun. Fylgi Flokks fólksins mældist nú 4,9% en 6,2% í síðustu könnun. Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mældist nú 4,4% en mældist 5,0% í síðustu könnun.

Könnunin var framkvæmd frá 30. desember 2020 til 11. janúar 2021 og var heildarfjöldi svarenda 2.002 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Allar niðurstöður hafa einhver vikmörk sem miðað við 1.000 svarendur geta verið allt að +/-3,1%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert