Fólkið sem slasaðist í hlíðum Móskarðshnjúka í gær liggur á Landspítalanum. Það hefur verið í rannsóknum en er ekki í lífshættu.
Að sögn Elínar Agnesar Kristínardóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, voru það kona og maður sem lentu í slysinu en ekki tvær konur eins og greint var frá í gær.
Lögreglan ræddi stuttlega við þau í dag og benda fyrstu upplýsingar til þess að hálka og klaki hafi valdið slysinu. Málið er í rannsókn og er ekkert meira hægt að segja um það að svo stöddu, bætir Elín Agnes við. Ekkert liggur heldur fyrir um meiðslin sem fólkið varð fyrir eða aldur þess.
Mikill viðbúnaður viðbragðsaðila var á svæðinu þegar slysið átti sér stað. Björgunarsveitarmenn og sjúkraflutningamenn komu á vettvang á sexhjólum og þyrla Landhelgisgæslunnar flutti fólkið á Landspítalann.