Ákvörðun Stöðvar 2 að fréttir stöðvarinnar verði aðeins aðgengilegar áskrifendum hefur vakið mikla athygli. Þingmaður Miðflokksins segir að tímabært sé að ræða stöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins og nefndarmaður í Allsherjar- og menntamálanefnd, segir að staða fjölmiðla hafi ekki verið rædd á vettvangi nefndarinnar.
Sjálfur hafi hann enga skoðun á því hvaða ákvarðanir Stöð 2 taki á viðskiptalegum forsendum en nauðsynlegt sé að taka upp umræðu um hlutverk Ríkisútvarpsins. Hann minnir á að þingmenn Miðflokksins hafi nýlega lagt fram tillögu þess efnis að að fólki sé frjálst að beina þriðjungi af útvarpsgjaldinu að þeim fjölmiðli sem það vill.
„Ég hef stundum orðað það sem svo að við fæðumst inn í tvær stofnanir; þjóðkirkjuna og RÚV. Eini munurinn þar á er að við getum sagt okkur úr þjóðkirkjunni en það er bara ein leið út úr RÚV,“ segir hann.
Þorsteinn kveðst vera vinur RÚV og hann vilji að stofnunin geti sinnt sínum lögbundnu skyldum vel og hafi til þess tækifæri. Ýmislegt megi þó setja út á í rekstri stofnunarinnar.
„Það er skrítið að þegar búið er að breyta ríkisstofnun í fyrirtæki sem hefur þægilegri ramma til að vinna í að þarna verður engin hagræðing. Það var til að mynda stórfrétt þegar þremur var sagt þar upp í haust, það er aðeins brotabrot starfsmanna. RÚV kostar okkur fimm milljarða úr ríkissjóði á hverju ári auk þess að fá tvo milljarða í auglýsingatekjur. Við fjárlagagerðina kom kvörtun úr Efstaleiti og það voru umsvifalaust reiddar fram 400 milljónir aukalega. Ég man ekki eftir annarri stofnun sem hefur fengið slíkar trakteringar. Ég tel að ýmislegt hafi gengið á sem ekki er fullrætt.“