Malbik sem gæti orðið að garði

„Það er ekki jafn langt gengið en á sama tíma …
„Það er ekki jafn langt gengið en á sama tíma er verið að gera góða hluti hér og annars staðar, en París er þar fremst í fylkingu.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

„París er í fararbroddi fylkingar hvað varðar að búa til borgir sem eru mannvænni í gegnum það að takmarka offorsið sem einkabíllinn hefur haft yfir lífi okkar í borginni,“ segir Eyþór Máni Steinarsson, formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl, um fregnir af því að breyta eigi hinni margfrægu Champs-Élysées í garð.

Eyþór segir borgaryfirvöld í höfuðborg Frakklands hafa verið að taka mörg góð skref í átt að vænlegri borg fyrir bíllausan lífsstíl, meðal annars með því að takmarka umferð.

Götur sem gætu verið mjög fallegar

Reykjavíkurborg megi fá þakkir fyrir að gera svipaða hluti þótt ekki sé jafn langt gengið og að hann efist ekki um að borgaryfirvöld horfi til kollega sinna í París.

Það er ekki jafn langt gengið en á sama tíma er verið að gera góða hluti hér og annars staðar, en París er þar fremst í fylkingu.

Hann segir að þrátt fyrir að við höfum kannski enga sambærilega götu og Champs-Élysées hér í Reykjavík væri hægt að hugsa svipað til Laugavegs, Hverfisgötu og Bankastrætis, svo dæmi séu nefnd. „Götur sem gætu verið mjög fallegar sem göngugötur og/eða garður, en er núna malbik.“

Hverfisgatan verði almenningsgarður

En Champs-Élysées er ekki bara sögufræg gata sem leiðir að Sigurboganum, heldur er það einnig mikil umferðargata sem hefur nú fjórar akreinar í hvora átt. Með breytingunum verður akreinum fækkað um helming, eða í tvær í hvora átt.

„Þetta er í takt við stefnuna sem borgaryfirvöld í París hafa tekið, og það er ástæða fyrir því að þetta er að gerast. Það er af því fólk kýs borgarstjórnir sem gera góða hluti fyrir borgina, gera borgina að líflegri stað, mannvænni og betri stað til að lifa,“ segir Eyþór.

„Þetta er vissulega stór umferðargata, en þetta er væntanlega ekki eina leiðin til að komast frá A til Ö. Ef þú býður fólki upp á góðar leiðir, þá mun fólk velja aðrar leiðir en að fara akandi milli staða. Vð fögnum þessum breytingum að sjálfsögðu og værum mjög til í að sjá Hverfisgötuna verða að almenningsgarði líka, af hverju ekki?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert