Blaðamannafélag Íslands segir það þungt áfall fyrir íslenska samfélagsumræðu að Stöð 2 hafi ákveðið að læsa dagskrá fyrir öðrum en áskrifendum. Það sé áfellisdómur yfir þeim rekstarskilyrðum sem fyrirtækjum hefur verið búin á þessum markaði frá því að frelsi á ljósvakamarkaði varð að veruleika á níunda áratugnum.
„Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað vakið athygli á þeim óeðlilegu skilyrðum sem löggjafinn hefur ákveðið að búa fyrirtækjum á þessum markaði,“ segir í tilkynningu.
Er þar vísað til þeirra ósanngjörnu samkeppnisaðstæðna sem ríkja á markaði sem stafa að lögum um RÚV og samkeppnishamlandi hegðunar fyrirtækisins á auglýsingamarkaði. Það sé „Veigamikil ástæða þess að ekki eru fleiri öflugar sjónvarpsstöðvar hér á landi en raun ber vitni,“ segir í tilkynningu.
„Það er von Blaðamannafélags Íslands að þessi ákvörðun eigenda Stöðvar 2 verði ekki til þess að fréttir stöðvarinnar leggist af fyrir fullt og all. Það yrði enn meiri afturför og áfall fyrir samfélagsumræðum í landinu,“ segir ennfremur.
Þá segir jafnframt að læstar fréttir Stöðvar 2 séu táknrænn lægsti punktur í samtímasögu íslenskrar fjölmiðlunar og segi ömurlega sögu um stöðuna á fjölmiðlamarkaði.