Lögreglan á Norðurlandi eystra fékk tilkynningu um vélsleðaslys á Tröllaskaga nálægt Lágheiði kl. 13:24 í dag. Þar væri um einn slasaðan mann að ræða. Viðbragðsaðilar á svæðinu voru ræstir út sem og þyrla Landhelgisgæslunnar.
Lögreglan á Norðurlandi eystra segir að aðgerðarstjórn hafi verið virkjuð á Akureyri.
Um klukkustund síðar voru sjúkraflutninga- , björgunarsveitar- og lögreglumenn komnir á vettvang. Þyrla LHG kom skömmu síðar og var hinn slasaði hífður upp í hana og flaug hún með hann á Sjúkrahúsið á Akureyri.
Hópur vélsleðamanna mun hafa verið þarna saman á ferð en ekki er vitað hvernig slysið bar að.
Þegar mbl.is hafði samband við Slökkviliðið á Akureyri fengust þær upplýsingar að sá slasaði væri ekki lífshættulega slasaður.
Klukkan 13:24 fékk lögreglan á Norðurlandi eystra tilkynningu um vélsleðaslys Tröllaskaga nálægt Lágheiði og væri um...
Posted by Lögreglan á Norðurlandi eystra on Föstudagur, 15. janúar 2021