Gott að geta skoðað alla

Heilbrigðisstarfsfólk á landamærunum.
Heilbrigðisstarfsfólk á landamærunum. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, fagnar því að ríkisstjórnin hafi ákveðið að skylda ferðamenn á landamærunum til að fara í skimun. „Við erum með ágætis fyrirkomulag á landamærunum. Þetta fer inn í það og það er engin leið framhjá því,“ segir hann.

Með því að skylda fólk á landamærunum til að fara í skimun, í stað þess að það geti valið að fara í 14 daga sóttkví, minnka líkurnar á því að það dúkkar upp veira innanlands sem ekki hefur sést áður, bætir Rögnvaldur við. Hann segir stöðuna öðruvísi núna en í sumar og haust. Búið er að ná góðum tökum á faraldrinum innanlands en erlendis er hann aftur á móti í miklum vexti víðast hvar. Þess vegna er gott að geta skoðað alla sem koma til landsins.

Komufarþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Komufarþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Árni Sæberg

Fleiri skilaboð og áminningar

Nokkuð erfitt hefur reynst að hafa eftirlit með þeim sem hafa valið að fara í 14 daga sóttkví. Í því samhengi nefnir Rögnvaldur nýlegt dæmi um par sem kom til landsins með börn sem valdi að fara í 14 daga sóttkví. Þegar haft var samband við vinnuveitanda mannsins átti maðurinn að vera mættur aftur í vinnu eftir sex daga. „Það var gripið þannig að það gerðist ekki en þetta var vísbending um að það hafi ekkert endilega staðið til að fara eftir þessu,“ greinir hann frá.

Fjölgað hefur verið skilaboðum og áminningum til fólks sem fer í fyrri sýnatöku á landamærunum og bíður eftir þeirri síðari. Einnig er hringt í fólk í ákveðnum tilvikum. „Við erum að gera svolítið mikið til að reyna að tryggja að fólk fái skilaboðin.“

Rögnvaldur Ólafsson.
Rögnvaldur Ólafsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefur áhyggjur af þorrablótum

Rögnvaldur segir stóra verkefnið vera að halda faraldrinum í skefjum innanlands. Hann hefur áhyggjur af því að fólk hittist í stærri hópum núna þegar búið er að hækka samkomutakmörk upp í 20 manns, sérstaklega í kringum þorrann. Hann nefnir auglýsingar um 20 manna þorraveislur og að nú sé tækifæri til að hitta vini. „Það er ekkert endilega það sem við viljum. Það er gott að gleðjast en betra að gera það í smærri hópum áfram og hafa hópamyndun áfram í lágmarki. Það eru skilaboðin okkar.“

Heilbrigðisstarfsmaður.
Heilbrigðisstarfsmaður. AFP

„Algjör frumskógur“

Spurður út í dagsetninguna 1. maí varðandi skref til afléttingar sóttvarna á landamærunum segist hann reikna með að hún tengist fjölþjóðasamstarfi. Verið sé að reyna að koma skipulagi á hlutina. „Þetta er svolítið villta vestrið hvað varðar aðgerðir í ýmsum löndum,“ segir hann og nefnir að það sé gríðarleg áskorun m.a. fyrir flugrekstraraðila að átta sig á landslaginu varðandi sóttvarnir. „Þetta er algjör frumskógur í augnablikinu en það eru allir sammála um að það þurfi að samræma þetta og sú vinna er í gangi," segir Rögnvaldur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka