„Upphlaup Samfylkingarinnar í gær með að það þyrfti að kalla saman þing í dag til að ræða eitthvað frumvarp frá þeim sem ekki er komið fram er bara leikaraskapur og lýðskrum,“ segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is í dag.
Þingflokkur Samfylkingarinnar kallaði í gær eftir því að þing yrði kallað saman í dag til að ræða breytingar á sóttvarnalögum.
Í dag voru breytingar gerðar á fyrirkomulagi skimunar við landamærin svo að nú er skylda að fara í svokallaða tvöfalda skimun og fjórtán daga sóttkví ekki lengur valkostur. Þetta var tilkynnt í kjölfar ríkisstjórnarfundar þar sem breytingarnar voru ræddar.
Þingi var frestað fyrir jól með þingsályktun og forsetabréfi. Til að kalla saman þing fyrir áætlaðan tíma þarf meirihluti þingmanna að vera á bak við slíka beiðni. Þá þarf kvaðningu til þingsins, með nýju forsetabréfi og boðun til allra þingmanna. Slíkt er nokkuð verk sem ekki er unnið á innan við sólarhringi.
Þingið kemur saman til fundar á mánudaginn og hefði þing komið saman í dag hefði einn þingfundadagur bæst við.
„Málin eru til meðferðar í velferðanefnd Alþingis, þar er verið að fjalla um frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum, sem hafa þann tilgang að renna styrkari lagalegum stoðum undir ýmsar sóttvarnaraðgerðir ríkisstjórnarinnar. Það var ekkert sem kallaði á þingfund í dag,“ sagði Birgir.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sendi bréf í gær á formenn þingflokka á Alþingi með beiðni um að þing skyldi kallað saman daginn eftir.
Í samtali við mbl.is kveðst Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, ekki hafa vitað af beiðninni fyrr en seint í gærkvöldi.
„Ég fékk að vita af þessu seint í gærkvöldi og var síðan búin að útskýra það rækilega hvernig stjórnskipuleg staðan er. Það er ekki á höndum forseta Alþingis að kalla þingið saman þegar því hefur verið frestað með forsetabréfi að undangengnu samþykkir Alþingis með þingsályktun fyrir því,“ sagði Steingrímur.