Neitaði skimun og beið klukkutímum saman við hliðið

Sýnataka hefur verið á landamærunum síðan um miðjan júní.
Sýnataka hefur verið á landamærunum síðan um miðjan júní. mbl.is/Íris

Einn þeirra sem komu til landsins í gær neitaði að fara í skimun á Keflavíkurflugvelli. Var honum því synjað um að fara inn í landið. Viðkomandi beið í nokkrar klukkustundir við sýnatökuhliðið þar til hann gaf sig og fór sjálfviljugur í sýnatöku segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. 

Alls greindust 14 með Covid-19 á landamærunum í gær og voru margir þeirra að koma með sömu flugvél til landsins.

Fimm farþegaþotur komu til landsins í gær, tvær frá Póllandi (Varsjá og Gdansk), ein frá Riga, Amsterdam og Kaupmannahöfn. Í dag er von á fjórum vélum til landsins.

Innanlands greinist einn með kórónuveiruna í gær og var sá í sóttkví. Á föstudag greindist ekkert smit innanlands. Víðir segir þetta jákvæðar fréttir en hann hefur ekki upplýsingar um fjölda sýna sem tekin voru. Vaninn sé að mun færri komi í sýnatöku um helgar þrátt fyrir að sýnataka sé í boði fyrir alla þá sem finna fyrir einkennum. Upplýsingarnar um sýnatökur og fleira tengt Covid-19 munu liggja fyrir á morgun.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að sögn Víðis fara langflestir sjálfviljugir í skimun á landamærunum en þessi eina manneskja í gær var ákveðin í því að fara ekki í sýnatöku. Hún stóð föst á sínu og þar við sat í nokkrar klukkustundir. 

Víðir segir að starfsmenn hafi gert viðkomandi grein fyrir því að hann fengi ekki að koma inn í landið án sýnatöku og gáfu honum kost á að hugsa málið. Sem viðkomandi gerði í nokkrar klukkustundir áður hann gaf sig.

„Okkar fólk í framlínunni stóð sig vel þarna,“ segir Víðir enda hefur skimun á landamærum verið skylda frá 15. janúar fyrir aðra en þá sem geta lagt fram bólusetningarvottorð eða vottorð um að hafa smitast af Covid-19 og smit sé afstaðið. Var þetta ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar á föstudag í ljósi alvarlegrar stöðu faraldursins víða um heim og verður núverandi fyrirkomulag sóttvarna á landamærunum með tvöfaldri skimun og fimm daga sóttkví á milli framlengt til 1. maí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka