„Vinnan gengur vel, þetta er stórt má og snertir síst heilbrigðismál og mest stjórnskipan og vald ráðherra,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar um vinnu við frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum.
Hún segir að nefndin sé ekki farin að ræða einstaka efnistök frumvarpsins og málið sé í algjörum forgangi og fjórir fundir hafi verið haldnir um málið frá áramótum sem að miklu leiti voru helgaðir vinnu við þetta eina frumvarp.
Helga Vala segir eðlilegt að stjórnvöld hafi heimild til að grípa fast inn í þegar þurfa þykir. Hún segist samt setja spurningarmerki við hvort að þetta mikla vald og mikla ábyrgð eigi að hvíla á herðum eins ráðherra eða eins embættismanns.
Hún veltir upp hugmyndum um hvort skynsamara væri að tveir ráðherrar þyrftu að taka ákvörðun um takmarkanir saman eða að ráðherra bæri ákvarðanir um takmarkanir undir Alþingi.
„Ég held að þetta ofboðslega vald sem hefur svona víðtæk áhrif á líf einstaklinga í víðasta skilningi, á efnahagslífið og svo framvegis, ég held að það sé mikilvægt að það komi líka einhver annar að því,“
Helga Vala bætir því við að þó að núverandi heilbrigðisráðherra njóti trausts og hafi staðið sig vel þá sé ekki hægt að miða lögin við bestu mögulega manneskju í embætti að hverju sinni.
„Við þurfum líka að smíða lögin út frá því að þar geti verið einhver sem við treystum aðeins minna.“
Helga Vala segir til umræðu í nefndinni að hafa sóttvarnalög almenn en sér lög um viðbrögð í heimsfaraldri – eða jafnvel sér lög um viðbrögð við Covid faraldrinum.
Styður þú ákvæði um skyldubólusetningu?
„Ég er auðvitað hlynnt bólusetningum. Varðandi skyldubólusetningu finnst mér í svona tilfellum þegar um heimsfaraldur er að ræða sem hefur svona áhrif á allt samfélagið, tel ég að það geti verið rétt.“
Helga Vala segir sóttvarnayfirvöld ekki standa nægilega föstum fótum í skyldu til tvöfaldrar skimunar, sem að hún segist styðja heilshugar – og vildi gjarnan að hefði verið gert að skyldu fyrr.