Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur lagt til að framkvæmd verði öryggisúttekt í kjölfarið á bifhjólaslysi sem þar varð í sumar, við Innstrandaveg þegar ekið er í norðurátt að Hrófá á Vestfjörðum. Ökumaður bifhjólsins var með hjálm og annan öryggisbúnað en hlaut alvarlega áverka og lést á vettvangi.
Vegurinn liggur yfir blindhæð og skammt undan er einbreið brú yfir ána Hrófá, en þegar ökumaður bifhjólsins ók upp á blindhæðina voru þrjár bifreiðar kyrrstæðar við brúna að hleypa umferð úr gagnstæðri átt yfir hana.
Ökumaður bifhjólsins ók þá í átt að kyrrstæðu ökutækjunum við brúna og nauðhemlaði rúmlega 65 metra, féll þá af hjólinu, kastaðist 16 metra og hafnaði á öftustu bifreiðinni.
Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem fjallar um banaslysið, kemur fram að ökumaður bifhjólsins hafi ekið of hratt og ekki gætt að viðvörunarmerkjum um einbreiða brú og hættu en samt beinir nefndin þeirri tillögu til veghaldara að framkvæma öryggisúttekt á slysstað og vinna að úrbótum til að bæta umferðaröryggi við brúna og blindhæðina.
Þá fylgir athugasemd í skýrslunni þess efnis að nýverið hafi verið gerðar endurbætur á merkingum við blindhæðina þar sem slysið varð:
„Þar er nú kominn leiðbeinandi hámarkshraði, ásamt viðvörun um blindhæð og einbreiða brú. Að auki eru komin viðvörunarljós við brúna til að vara betur við aðstæðum. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru frekari aðgerðir til skoðunar til að auka öryggi vegfarenda á slysstaðnum,“ segir þar í lokin.