Besta lausnin eða vonbrigði?

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki verður opnað fyrir ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur samkvæmt frum­varpi Katrínar Jakobsdóttur for­sæt­is­ráðherra til breyt­inga á nokkr­um ákvæðum stjórn­ar­skrár­inn­ar. Frumvarpinu verður líklega dreift á Alþingi síðar í dag.

Þetta kom fram í máli Katrínar á þingi í dag þar sem staða stjórnarskrármála var til umræðu.

Katrín segir að með efnislegri umræðu um málið munu tímabærar breytingar á stjórnarskránni þokast áfram en bætti því við að flókið væri að ná fullkominni sátt um einstök atriði stjórnarskrárinnar.

„Frumvarpið sem ég hef boðað að verði dreift á Alþingi vonandi síðar í dag er enn í lokafrágangi,“ sagði Katrín og bætti við að hún fullvissaði alla um að vandað hefði verið til verka.

Meðal ákvæða sem tekið verður á, samkvæmt frumvarpi forsætisráðherra, eru umhverfis- og náttúrumál, sem og mál er varða framkvæmdavald og embætti forseta Íslands. 

Ekkert ákvæði verður um þjóðaratkvæðagreiðslu og sagði Katrín ljóst að það þurfi frekari umræðu.

„Okkar verkefni er að finna bestu mögulegu breytingar á stjórnarskrá,“ sagði Katrín sem vonast eftir efnislegum umræðum um málið á þingi.

Vonbrigði að mati minnihlutans

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, lýsti yfir vonbrigðum vegna þess að þingi hefði ekki tekist að efna loforð sitt um að endurnýja stjórnarskrá. Hann sagði tilraun til að ná sátt um málið hafa mistekist.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði allt ferlið sem farið var í hafa mistekist. „Alþingi hreinlega ræður hreinlega ekki við verkefnið,“ sagði Helgi Hrafn og taldi pólitíska hagsmuni meirihlutans koma í veg fyrir að gerðar yrðu breytingar sem þyrfti að gera.

„Þetta á að vera stjórnarskrá þjóðarinnar en ekki stjórnarskrá Alþingis eða ríkisstjórnarinnar,“ bætti Helgi Hrafn við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert