Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi, býður sig fram í þrjú efstu sætin á framboðslista Samfylkingar í Suðvesturkjördæmi. Guðmundur hefur setið í bæjarstjórn fyrir Samfylkingu á Seltjarnarnesi síðan árið 2014 og sem oddviti frá árinu 2018.
„Ég býð mig fram til þess að vera baráttumaður fyrir jöfnuði og réttlátu samfélagi, samfélagi þar sem þar sem allir eiga möguleika á að sækja sér menntun og heilbrigðisþjónustu og láta drauma sína rætast óháð því hverja manna þau eru eða í hverju þau lenda á lífsleiðinni,“ skrifar Guðmundur í framboðstilkynningu.
Hyggst hann meðal annars beita sér fyrir fjármögnun á málaflokki fatlaðra og fjármögnun NPA-samninga:
„Ég býð mig fram til þess að stíga inn í landsmálin og halda þessari baráttu áfram. Ég mun berjast fyrir bættri lagaumgjörð um skóla- og frístundastarf og stuðningi við skólaþróun og bættum starfsaðstæðum fagfólks í skóla- og frístundamálum.
Ég mun berjast fyrir fjármögnun á málaflokki fatlaðra og fjármögnun á NPA-samningum. Ég mun berjast fyrir áframhaldandi þróun á borgarsamfélaginu á stórhöfuðborgarsvæðinu, fyrir fjölbreyttu húsnæðisframboði og atvinnutækifærum, fyrir öflugum almenningssamgöngum, hjóla- og göngustígum, fyrir listum og menningu og almennum lífsgæðum,“ segir í framboðstilkynningu Guðmundar.