Fjórir og fjölskylda lentu í flóðinu á Öxnadalsheiði

Hannes Rúnarsson atvinnubílstjóri var á meðal þeirra fjögurra sem fengu á sig snjóflóð á Öxnadalsheiði um klukkan tíu í gærkvöldi. Voru fjórmenningarnir að vinna að því að moka bíl í gegnum um 150 metra skafl á veginum, en í bílnum var barnafjölskylda. Áður hafði Hannes haft samband við Vegagerðina, bæði til að biðja um að heiðinni yrði lokað vegna færðar, en einnig til að óska eftir aðstoð þegar ljóst var að skaflinn stöðvaði alla umferð og bílar festust þar uppi. Hann segist ósáttur með svör Vegagerðarinnar, en ákveðið var að senda ekki aftur upp snjóruðningsbíl.

Í samtali við mbl.is fer Hannes yfir tímalínu málsins, en hann hafði fyrr um kvöldið keyrt frá Akureyri í Varmahlíð. Segir hann að færðin þá hafi verið nokkuð góð og aðeins föl á veginum. Hann hafi hins vegar ákveðið að snúa við vegna veðurspár og færðar áfram suður og því haldið til baka yfir Öxnadalsheiðina.

Ákveða að senda ekki ruðningstæki aftur upp á heiðina

Rétt áður en komið er upp á topp heiðarinnar, við Grjótaá, koma þeir að bíl sem er fastur í fyrrnefndum skafli. Er þetta um kílómetra frá toppnum. Hringir hann klukkan 20:54 í Vegagerðina og biður um aðstoð. Fær hann þau svör að samkvæmt staðsetningartæki í ruðningstæki ætti bíll að vera þar nálægt sem verði sendur á staðinn. Aftur hefur hann samband klukkan 21:03, bæði til að athuga með stöðuna en einnig til að leggja til að heiðinni verði lokað.

Fær hann þá þau svör að staðsetning ruðningstækisins hafi ekki verið rétt og ekki verði sendur bíll upp aftur og að þjónusta á heiðinni sé aðeins til klukkan hálftíu og þá þurfi viðkomandi starfsmaður að vera kominn aftur til byggða. Heiðinni er jafnframt ekki lokað, en appelsínugul viðvörun sett á, en á þessum tíma voru sex bílar komnir í röð fyrir aftan skaflinn.

Aftur klukkan 21:28 hefur Hannes samband við Vegagerðina til að ítreka að loka þurfi heiðinni, en enn er ekkert gert.

Allt í einu kom þvílíkt högg

Á þessum tíma er Hannes ásamt þremur öðrum að vinna að því að moka fyrsta bílinn í gegnum skaflinn með skóflum. Þegar þeir eiga stutt eftir, um klukkan tíu, fellur hins vegar flóð og fer yfir veginn. Hannes lýsir því svo við mbl.is að hann hafi ekki heyrt neitt, en allt í einu hafi komið þvílíkt högg og læti og þegar hann uppgötvar hvað hafi gerst standi hann í snjó upp að hnjám og húfan sé farin út í veður og vind og eyrun hafi verið full af snjó. „Það voru kögglar allt í kringum okkur og kominn um metershár skafl við bílinn,“ segir hann.

Sem betur fer kom aðeins lítill hluti flóðsins á veginn, en Hannes segir að það hafi líka farið aðeins yfir veginn. Allir hafi sloppið ómeiddir og að aðeins sé guðslukka að ekki hafi farið verr. „Sem betur fer var það ekkert rosalega öflugt þegar það kom yfir okkur,“ bætir Hannes við. Segir hann flóðið líklega hafa verið um 300 metra breitt ofar í fjallinu.

Viðbrögð eftir að hringt var í lögregluna

Klukkan 22:04 hringir hann í lögregluna og tilkynnir um flóðið og er þá björgunarsveit kölluð út sem og veginum lokað. Segir Hannes að þarna hafi hann fyrst fengið viðbrögð sem hann taldi viðeigandi fyrir aðstæðurnar.

Hálftíma eftir flóðið tókst þeim að moka sig í gegnum skaflinn og var þá lögregla að koma á vettvang. Var bílunum, sem voru á þessum tíma orðnir 10-15, keyrt í gegn og héldu þeir niður af heiðinni. Segir Hannes að veðrið hafi í raun ekki skánað fyrr en komið var í Þelamörk.

Hannes keyrir yfir Öxnadalsheiði mörgum sinnum í viku vegna starfs síns og segist vera mjög ósáttur með viðbrögð Vegagerðarinnar í gær. Bæði varðandi að snúa ekki ruðningstækinu við til að komast í gegnum skaflinn, en ekki síður að hafa ekki lokað heiðinni og í staðinn leyft fleirum að leggja af stað upp í ófærðina. Segir hann að greinilega þurfi að skoða verkferla hjá stofnuninni í kjölfarið.

Frá vettvangi á Öxnadalsheiði í gærkvöldi.
Frá vettvangi á Öxnadalsheiði í gærkvöldi. Ljósmynd/Hannes
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert