Bensínlaus í blindflugi

Reynir Ragnarsson hefur komist í hann krappan margoft á lífsleiðinni …
Reynir Ragnarsson hefur komist í hann krappan margoft á lífsleiðinni en alltaf sloppið með skrekkinn. Þessi tæplega níræði töffari kallar ekki allt ömmu sína. mbl.is/Ásdís

Leiðin lá aust­ur í Vík í Mýr­dal til fund­ar við Reyni Ragn­ars­son, æv­in­týra­mann með meiru. Hann er reffi­leg­ur karl, á þrjú ár í ní­rætt en er spræk­ur og heilsu­hraust­ur og enn með blik í auga. Reyn­ir er í óðaönn að klára úr skyr­dollu þegar blaðamann ber að garði. Hann hell­ir vel af rjóma yfir skyrið og býður upp á kaffi. Við fær­um okk­ur svo yfir í betri stofu þar sem Reyn­ir kem­ur sér vel fyr­ir í góðum græn­um „Lazy boy“-stól. Þar er gott að rifja upp sög­ur, en af þeim á Reyn­ir nóg. Hann hef­ur marga fjör­una sopið og stund­um í bók­staf­legri merk­ingu, en æv­in­týr­in sem Reyn­ir hef­ur lent í í lofti, á láði og legi eru ófá. Eins og kött­ur­inn virðist Reyn­ir eiga sér níu líf og er lík­lega bú­inn með þau all­nokk­ur.

Langaði að veiða hval

Sem ung­ur maður var Reyn­ir óhrædd­ur við að prófa nýja hluti.

„Ég var gef­inn fyr­ir æv­in­týri og við tók­um okk­ur sam­an níu strák­ar og keypt­um okk­ur lít­inn hraðbát sem við flengd­umst á um all­an sjó. Mér datt svo eitt sinn í hug að fara með fjöl­skyld­una til Vest­manna­eyja á bátn­um. Á baka­leiðinni þegar ég var kom­inn lang­leiðina að strönd­inni sjá­um við hvali. Ugg­arn­ir stóðu hátt upp úr sjón­um. Þeir voru þar kyrr­ir og ró­leg­ir og ég sigldi að þeim til að at­huga hvort þeir væru nokkuð dauðir. Það kom upp í mér ein­hver veiðinátt­úra og mig langaði að reyna að ná ein­um. Þetta var nú ótrú­leg vit­leysa, en ég var með band sem ég ætlaði að kasta yfir sporðinn og svo ætlaði ég að reyna að taka hann í eft­ir­dragi í land,“ seg­ir hann og skelli­hlær. 

Reynir er hér með börnin sín Möggu, Kristínu, Ásu og …
Reyn­ir er hér með börn­in sín Möggu, Krist­ínu, Ásu og Gutta end­ur fyr­ir löngu. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

„Ég var með kon­una og þrjú börn í bátn­um. En það gerðist ekki annað en að þeir létu sig hverfa ofan í hafið, en hefðu auðveld­lega getað velt bátn­um. En ég missti af veiðinni, sem bet­ur fer,“ seg­ir hann og bros­ir.

Með tösk­ur full­ar af sjó

Í annað sinn ákvað Reyn­ir að koma fjöl­skyld­unni til Fær­eyja og hugðist sigla með hana út í fær­eysk­an línu­bát sem var skammt und­an strönd­inni.

„Krakk­arn­ir voru þá orðnir stálpaðri. Frændi þeirra var skip­stjóri og ætlaði að sigla með þau til Fær­eyja. Þenn­an dag var svo­lítið brim þannig að ég ákvað að fara frá Reyn­is­fjör­unni. Ald­an þar gat verið sterk. Þegar kom lag ýtt­um við á flot og ég hoppa um borð og set í gang,“ seg­ir Reyn­ir og seg­ir þá að splitti í skrúf­unni hafi gefið sig.

„Þannig að skrúf­an sner­ist ekki. Við vor­um stopp þarna en það bygg­ist allt á því að kom­ast á skriði út. Á næsta and­ar­taki kem­ur alda og kast­ar okk­ur upp og á hvolf. Ég lenti utan við bát­inn en Magga og Denni und­ir hon­um. Ég gríp strax í lunn­ing­una og þau skríða und­an. Hræðslan var ekki meiri í Möggu en svo að hún sá tösk­una sína fljóta í burtu og rauk á eft­ir henni og sótti áður en hún kom sér upp á strönd,“ seg­ir hann og bros­ir.

„Við vor­um öll auðvitað hold­vot.“

Reyn­ir rauk þá til Vík­ur og náði í ann­an mótor og gerð var önn­ur til­raun sem gekk vel.

Og all­ir komn­ir í þurr föt?

„Nei, nei, þau fóru bara í blautu föt­un­um. Með tösk­urn­ar full­ar af sjó,“ seg­ir hann og hlær dátt.

Alltaf á vakt

„Á þeim tíma var hér aðeins einn lög­reglumaður í hálfu starfi og hann var bú­inn að segja upp. Ég sótti um í bría­ríi, þótt ég væri kom­inn ná­lægt fimm­tugu, og fékk starfið. Ég fór svo í lög­reglu­skól­ann tvær ann­ir og var svo í lög­regl­unni í tutt­ugu ár. Helm­ing­inn af þeim tíma var ég eini fa­stráðni lög­reglumaður­inn í sýsl­unni, en hafði mér til aðstoðar héraðslög­reglu­menn sem ég gat kallað út og valið þá mér stærri og sterk­ari menn. Þetta var ró­legt svæði en þó svo­leiðis að ég var á vakt all­an sól­ar­hring­inn. Það var hringt jafnt á nóttu sem degi, vegna óhappa og ann­ars. Það var orðið svo­leiðis að ég svaf í skyrt­unni og hoppaði svo í bux­ur þegar kom út­kall. Ég hvíldi mig svo bara þegar ég gat. Það var meira en nóg að gera og oft var maður mjög þreytt­ur,“ seg­ir hann og seg­ist hafa þurft að fara á vett­vang slysa og óhappa á veg­un­um sem voru þá mal­ar­veg­ir, auk þess að mæta á staði þar sem erj­ur og fyllirí voru í gangi.

„Erfiðust var óviss­an þegar maður var á leið í út­kall þegar það var bíl­velta eða stór­slys. Þá var maður með hnút í mag­an­um. Þessi ófyr­ir­sjá­an­leiki var erfiður.“

Flug­della sem ekki lagaðist

Á svipuðum tíma og hann tek­ur við sem lög­reglumaður stungu fé­lag­ar hans upp á því að kaupa sam­an flug­vél sem aug­lýst var til sölu. Reyn­ir hafði nefni­lega tekið einka­flug­manns­prófið þegar hann var bú­stjóri í Krýsu­vík tveim­ur ára­tug­um áður.

Reynir bregður á leik við litlu vélina sína sem hann …
Reyn­ir bregður á leik við litlu vél­ina sína sem hann átti í fjóra ára­tugi en hann lagði flug­mannsskirteinið á hill­una í fyrra, þá 86 ára. Ljós­mynd/​Aðsend

„Ég hafði haldið flugskirtein­inu við að mestu í þenn­an tíma. Ég keypti þá með þeim vél­ina, en eng­inn þeirra hafði rétt­indi en þeir hugðust læra. Þannig var ég alltaf feng­inn í flug, enda alltaf með flug­dellu sem ekki lagaðist þarna. Það var nú heilt æv­in­týri í kring­um flugið. Ég var oft að fljúga með fólk til og frá Eyj­um með fullu starfi í lög­regl­unni. Eitt leiddi af öðru, án þess að ég stjórnaði at­b­urðarás­inni. Það var lækn­ir á Klaustri sem bað mig um að fljúga sjúkra­flug til Reykja­vík­ur og ég gat ekki neitað því og eft­ir það fer ég fjöl­mörg sjúkra­flug á þess­ari litlu rellu, en tók þá hliðarsætið úr,“ seg­ir Reyn­ir.

Bens­ínið búið á flugi

Lent­ir þú í ein­hverj­um hremm­ing­um í flug­inu?

„Ég hef sloppið við öll slys en hef lent í smá veseni. Eitt skipti var gos ný­byrjað í Vatna­jökli; hafði byrjað dag­inn áður. Jón Ársæll var þá með þátt­inn Ísland í dag og vildi fljúga yfir með mynda­töku­mann­inn Dúa Land­mark. Ég flýg svo með þá og þá er skýja­bakki sunn­an við jök­ul­inn og ég fer meðfram hon­um, en þá var kom­inn skýja­bakki yfir jökl­in­um. Ég var í brasi með að kom­ast nógu hátt og þarna var niður­streymi. Það var ekki fyrr en í þriðju til­raun að ég náði það hátt að kom­ast yfir ský­in. Þá sáum við gos­mökk­inn stíga upp úr skýj­un­um, en sáum ekki niður á jök­ul­inn. Þeir mynduðu þetta og það fór góður tími í það og ég flaug þarna marga hringi. Á meðan er alltaf þessi skýja­bakki að fær­ast lengra norður og ég flýg í norður til að reyna að fljúga und­ir hann. Þegar ég ætla suður var al­veg lokað. Ég var að reyna að finna glufu en það var alls staðar lokað og ég bú­inn að eyða heil­miklu bens­íni. Ég varð að fljúga blind­flug suður eft­ir. Það voru ekki blind­flugs­tæki í þess­ari vél. Ég flaug eft­ir komp­ásn­um og klifra þarna upp í 7.000 fet í svartaþoku og sé ekki neitt. Svo fór að koma ís­ing á vél­ina,“ seg­ir hann og hlær.

„Ég lækkaði mig um 1.000 fet en þorði ekki neðar, svo ég yrði ekki nærri fjöll­um. Svo sjá­um við allt í einu gat niður og ég hring­sóla niður gatið og sé að við erum við upp­tök Skaft­ár. Til ör­ygg­is ákvað ég að fylgja Skaft­ánni en á kafla er hún í gljúfri. Þar var svo lág­skýjað að ég varð að vera í gljúfr­inu og þeir fé­lag­ar voru að benda mér á kletta sem ég þyrfti að passa mig á. Þegar ég kem úr gljúfr­inu er al­bjart þar fyr­ir fram­an og ég óskap­lega ánægður og létt­ur,“ seg­ir Reyn­ir sem seg­ist hafa stefnt í átt að Kirkju­bæj­arklaustri þar sem þeir myndu lenda.

„Þá allt í einu kem­ur púff-hljóð í vél­ina; hún missti úr slag og ég nátt­úr­lega hrökk við. Ég ákvað að hækka flugið og vera yfir veg­in­um ef eitt­hvað skyldi koma fyr­ir. Stuttu seinna drep­ur hún al­veg á sér. Það var mjög lítið bens­ín á henni en mæl­ir­inn sýndi samt að það væri smá eft­ir. En hún stoppaði og ég gat ekk­ert gert nema að svífa, vél­in smá­lækk­ar niður eft­ir og ég ætlaði að lenda á veg­in­um og var nokk­ur ör­ugg­ur að ég gæti það. En svo þegar ég er kom­inn niður und­ir veg hitt­ist það þannig á að þar er akkúrat há­spennu­lína yfir. Og pípu­hlið og girðing. Ég er kom­inn niður að veg­in­um og reisi hana aðeins við, sem maður ger­ir til að hægja á og lenda. Þá hrekk­ur hún allt í einu í gang með fullri orku og ég rýk upp og yfir há­spennu­lín­una, sem ég hafði ætlað und­ir. Svo þegar ég er kom­inn í nokkra hæð fer hún aft­ur að hökta. Það var eins og slegið inn í mig að ég kæm­ist alla leið. Ég sá fyr­ir mér bens­ínið í tankn­um og vissi að það væru fjög­ur gallon af bens­íni sem ekki væri hægt að ná, en þegar ég beitti henni upp þá flýt­ur bens­ínið aft­ast í tank­inn. En þá þurfti ég að fljúga henni með nefið uppi og velta henni til að ná bens­ín­lögg­inni,“ seg­ir hann og hlær.

„Hún var að hrökkva í gang og drepa á sér með alls kon­ar spreng­ing­um og lát­um alla leið til Klaust­urs. Þegar ég kem svo að flug­vell­in­um sé ég að ég er í allt of mik­illi hæð þar og var að yf­ir­skjóta braut­ina. Þá gerði ég það sem or­ustuflug­menn gera; ég lagði hana á hliðina og lét hana falla niður, slippa sem kallað er. Ég gerði það þar til hún var kom­in í rétta hæð og lenti henni svo. Ég held að þeir hafi orðið svo­lítið hrædd­ir þegar þeir fundu að hún var að falla út á hlið,“ seg­ir hann.

„Vél­in malaði eins og kött­ur þegar við kom­um niður. Þegar þeir stigu út úr vél­inni voru þeir svo mátt­laus­ir í fót­un­um að þeir féllu á grúfu og kysstu jörðina, eins og páfinn.“

Varstu aldrei hrædd­ur í þess­ari flug­ferð?

„Ég var ekki hrædd­ur en ég held að ég hafi beðið guð að hjálpa mér mörg­um sinn­um í hug­an­um,“ seg­ir hann og hlær dátt.

Skall til jarðar og brákaði hrygg

Löngu áður en Reyn­ir eignaðist sína fyrstu vél rakst hann á aug­lýs­ingu í blaði þar sem flugdreki var til sölu.

„Þetta var eins og skutla og mér datt í hug að það gæti verið gam­an að leika sér með þetta. Það varð úr að ég pantaði svona flugdreka frá Banda­ríkj­un­um og hann var keyrður aust­ur í stranga á toppn­um á bíl. Það kunni auðvitað eng­inn á þetta og við sett­um hann sam­an eft­ir teikn­ingu. Svo hljóp ég fram af næsta hól og reyndi að svífa eitt­hvað á þessu en það gekk nú af­skap­lega brös­ug­lega fyrst. Það var lítið svif í hon­um, og ég byrjaði í litl­um brekk­um en sá svo að ég yrði að fara fram af fjalli til að svífa. Ég fór upp á Há­fell og lét mig vaða fram af,“ seg­ir hann og hlær.

„Ég sveif svo niður en það var ekki betra en það að ég náði engu flugi held­ur sveif bara niður. Svo þegar ég var bú­inn að eiga hann í nokkra mánuði var eitt af börn­un­um mín­um að ferm­ast uppi á Reyn­is­brekku og það komu gest­ir. Það var gott veður og ég og frændi minn fór­um að spá í hvort ekki væri bara hægt að draga mig á loft, eins og venju­leg­an flugdreka. Við fór­um út á Mýr­dalssand og strengd­um línu milli flugdrek­ans og bíls­ins og ég var dreg­inn á loft. Það gekk ágæt­lega og ég sveif og hélt hæð á eft­ir bíln­um. Ferm­ing­ar­veisl­an horfði á og hafði gam­an af. Svo morg­un­inn eft­ir erum við frænd­ur að spjalla og rædd­um hvort ekki væri eins hægt að láta bara vind­inn lyfta hon­um upp. Ég ákvað að prófa og við hnýtt­um ann­an end­ann á skotlínu í drek­ann og hinn í end­ann í ónýtri drátt­ar­vél. Ég festi mig við drek­ann og reisti hann upp á móti vind­in­um. Þarna var oft mis­vinda og stund­um kom vindgust­ur og þá náði ég að lyft­ast aðeins upp. Ég sá að þetta var nú ekk­ert sniðugt og ætlaði að fara að losa mig frá drek­an­um. Þá kem­ur feikna-vind­hviða og hann bara rýk­ur upp eins og þota en þegar ég er kom­inn langt upp eins og bandið leyfði slitn­ar það. Ég næ hon­um ekki niður að fram­an til að svífa niður, hann var svo reist­ur á leiðinni upp. Ég var að rembast við þetta en á meðan var hann á fullri ferð niður til jarðar. Svo bara skell­ur hann aft­ur á bak niður og ég heyrði að það brast eitt­hvað í bak­inu á mér,“ seg­ir Reyn­ir sem bað krakk­ana, sem horfðu upp á slysið, að hreyfa ekki við sér.

„Ég bað fólk að taka hurð af fjár­hús­inu og mér var lyft var­lega upp á hana og svo­leiðis var ég bor­inn inn í hús. Lækn­ir­inn kom og ég var send­ur suður með sjúkra­bíl og það reynd­ust þrír hryggj­arliðir vera brákaðir. Ég lá svo á spít­ala og svo heima í mánuð. Ég slapp bara virki­lega vel. Ég hefði getað lam­ast,“ seg­ir Reyn­ir sem reyndi þó að laga flugdrek­ann og prófaði aðeins aft­ur ann­an dreka.

„Síðan hef ég ekk­ert snert á þessu, nema sem farþegi. Í væng­flugi. Það var gam­an.“

For­sjón­in greip í taum­ana

Eft­ir að Reyn­ir hætti hjá lög­regl­unni og fór á eft­ir­laun hef­ur hann sinnt ýms­um störf­um og áhuga­mál­um.

„En nú er ég hætt­ur að fljúga og bú­inn að leggja inn skír­teinið mitt. Það var bara í fyrra­vet­ur, í kóf­inu. Ég flaug því þar til ég var 86 ára og þá hafði ég flogið síðan ég var tví­tug­ur. Sex­tíu og sex ár á flugi og bú­inn að reka þessa sömu litlu vél í yfir fjöru­tíu ár,“ seg­ir hann.

„Ég veit ekki hvort ég á að segja þér frá því, hvernig minn flugrekst­ur endaði,“ seg­ir hann og hlær.

Blaðamaður verður auðvitað for­vit­inn og hvet­ur hann til að leysa frá skjóðunni.

„Í fyrra­vet­ur ætlaði ég upp á jök­ul í góðu veðri. Það hafði snjóað og það var skafl fyr­ir utan flug­skýlið. Vél­in hafði verið treg í gang; köld. Ég hafði gert það áður að setja hana í gang inni í skýl­inu til að þurfa ekki að draga hana inn aft­ur ef hún færi ekki í gang. Ég var bú­inn að binda band í stélið og í bíl­inn og dró hana aft­ur á bak út úr skýl­inu í hæga­gang­in­um. Ég gat ekki dregið hana nema rétt út fyr­ir dyr vegna skafls­ins og ætlaði svo að beygja vél­inni fyr­ir skafl­inn. Ég leysi bandið og keyri bíl­inn hand­an við hornið og hringi til Eyja til að plana flugið og gefa þeim upp­lýs­ing­ar. Mér verður svo litið fyr­ir hornið og þá er þar eng­in flug­vél,“ seg­ir hann og skelli­hlær.  

„Þá var hún kom­in inn aft­ur. Hún hafði lullað sjálf inn í hæga­gangi, keyrði á tjald­vagn og skrúf­an keng­beygðist. Ég var alltaf van­ur að setja hana í hand­bremsu, en hafði gleymt því þarna. Ég var bú­inn að kvíða fyr­ir því lengi að hætta að fljúga en þarna sá ég bara að for­sjón­in var að segja mér að þarna væri nóg komið. Ég hef svo oft lent í því í gegn­um lífstíðina að eitt­hvað hafi gripið inn í og forðað mér frá ýmsu eða leiðbeint mér, það sem ég kalla for­sjón­ina. Þannig að ég gat ekki annað en tekið mark á þessu og hætti al­veg sátt­ur. Eng­in eft­ir­sjá,“ seg­ir Reyn­ir og seg­ir vél­ina núna komna á safn í Skóg­um, enda er hún orðin yfir hálfr­ar ald­ar göm­ul þó að hún hafi verið í góðu flug­hæfu standi.

„Þar fer vel um hana.“

Vill sigla með ferðamenn

Fyr­ir mörg­um árum keyptu Reyn­ir og son­ur hans hjóla­báta og notuðu þá í byrj­un til fisk­veiða og síðar til að fara með ferðamenn í út­sýn­istúra.

„Þá voru eng­ir út­lend­ing­ar eins og núna, þetta voru bara Íslend­ing­ar. Þetta varð mjög vin­sælt en það var siglt út að dröng­um eða að Dyr­hóla­ey og í gegn­um gatið,“ seg­ir Reyn­ir sem enn á ný hyggst snúa sér að sigl­ing­um með ferðamenn sem koma von­andi í sum­ar.

Reynir vill fara að sigla með ferðamenn í sumar og …
Reyn­ir vill fara að sigla með ferðamenn í sum­ar og lét flytja inn tvo hjóla­báta. mbl.is/Á​sdís

Tím­inn líður hratt í stof­unni hjá Reyni, enda er hann af­burðaskemmti­leg­ur sögumaður og hef­ur lent í bæði lífs­háska og fjöl­mörg­um æv­in­týr­um á langri ævi. Sög­urn­ar eru efni í heila bók, en sú bók verður að bíða betri tíma. Eft­ir að hafa hlustað agndofa á Reyni er ekki laust við að maður telji víst að hann eigi sér níu líf, svo oft hefði getað farið verr.

„Já, sum­ir segja það. Mér finnst svo oft að ein­hver hafi verið í hand­leiðslu með mér.“

Lesa má um fleiri æv­in­týri Reyn­is í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um helg­ina. Hægt er að lesa það í heild sinni hér á mbl.is í vefút­gáfu Morg­un­blaðsins.

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert