Hljóð sem þú finnur fyrir

Gunnar Árnason við mixerinn í nýja Dolby Atmos-vottaða hljóðverinu sínu. …
Gunnar Árnason við mixerinn í nýja Dolby Atmos-vottaða hljóðverinu sínu. Tjaldið í bakgrunni. Árni Sæberg

Í Melahvarfi í Kópavogi er risið fyrsta hljóðverið á Íslandi sem er með Dolby Atmos-vottun. Eigandi þess, Gunnar Árnason, segir ófá handtökin að baki en um sé að ræða byltingu á sviði hljóðvinnslu hér á landi. Hljóðið smýgur þarna inn að beini. 

„Hljóð sem þú finnur fyrir,“ segir í kynningarmyndbandi alþjóðlega hljóðfyrirtækisins Dolby á stóru tjaldinu. Orð að sönnu. Mér finnst hljóðið vera í eyrunum á mér, í höfðinu, maganum, hjartanu og svei mér ef ég finn ekki fyrir því í tánum líka. Ég er allur löðrandi í hljóði! Hljóðið er líka allt í kringum mig og mér líður eins og ég sé þess umkominn að grípa það á lofti og þreifa á því.

Rúmt er um gesti í nýja hljóðverinu.
Rúmt er um gesti í nýja hljóðverinu. Árni Sæberg


 Við erum fjórir inni í hljóðverinu hans Gunnars Árnasonar í Upptekið í Melahvarfi í Kópavogi. Eigandinn, ég, Árni Sæberg ljósmyndari og hvolpurinn Pjakkur, þriggja mánaða tápmikill írskur setter í eigu Gunnars. Á þessu andartaki gleymir hann því að lífið sé leikur; situr bara stilltur á strák sínum og hlustar. Eins og við hinir. „Hvaðan kom hljóðið? Hvert er það að fara? Hvað er það? Hvernig var þetta hægt?“ eins og Adolf Ingi myndi vísast spyrja, væri hann þarna með okkur.

32 „surround“-hátalarar af gerðinni JBL eru í hljóðverinu. Til samanburðar má nefna að 20 slíkir hátalarar eru í stóra salnum í Háskólabíói, sem tekur um þúsund manns í sæti. Við erum að tala um 13 þúsund vött í hátölurunum sjálfum og helmingi fleiri vött í mögnurum. Hver og einn hátalari er á sérmagnara, þannig að hljóðið ferðast mjög auðveldlega á milli þeirra, svo sem glöggt má heyra. Þarna eru líka sex bassahátalarar í 55 fermetra rými, með um fimm metra lofthæð frá lægsta punkti. Sitjandi þarna inni skilur maður hvað þeir hjá Dolby eru að fara þegar þeir fullyrða að hljóðið sé hjartað í bíóinu. Dolby Atmos, kallast þetta. Maður lifandi, Dolby Atmos.

Christian Lerch, þýskur sérfræðingur frá Dolby, ásamt Einari Gíslasyni og …
Christian Lerch, þýskur sérfræðingur frá Dolby, ásamt Einari Gíslasyni og Gunnari sjálfum. Árni Sæberg


Fljótandi gólf

Að sögn Gunnars er um 35-40% meiri búnað að ræða en í Dolby Atmos-bíói enda meiri kröfur gerðar til hljóðvers af þessu tagi. Mixerinn er sá eini sinnar tegundar á landinu sem og vélbúnaðurinn sem er notaður í hljóðverinu.

Gólfið í hljóðverinu er fljótandi, fimm sentimetra rauf er á milli plötunnar og næstu plötu í húsinu og gúmmí sett á milli. Þannig er hvert herbergi í húsinu byggt á sérstakri gólfplötu. Gluggi er á hljóðverinu enda segir Gunnar dagsbirtuna skipta sköpum í löngum vinnutörnum. Glerið er áttfalt, sexfalt í hljóðverinu og tvöfalt í húsinu sjálfu utan um það. Þannig að stríð gæti hæglega geisað inni án þess að vegfarendur yrðu þess varir.

Við hlið hljóðversins hefur verið tekinn grunnur og þar ætla Gunnar og Stefanía Björk Sigfúsdóttir, kærasta hans, að reisa sér íbúðarhús og gestahús og er fyrirhugað að framkvæmdir hefjist á þessu ári. Það er gott að búa í Kópavogi, segja þeir. Hvað þá þegar vinnan manns er í næsta húsi.

Eddurnar fjórar sem Gunnar hefur hlotið fyrir hljóðvinnslu.
Eddurnar fjórar sem Gunnar hefur hlotið fyrir hljóðvinnslu. Árni Sæberg


Hann tók hljóðverið fyrst í notkun fyrir tveimur árum með venjulegu bíókerfi en fjórtán mánuði tók að uppfæra það í Dolby Atmos. „Ætli ég sé ekki búinn að skrúfa hátalarana upp og stilla þá átta sinnum. Maður fær litlar leiðbeiningar frá Dolby, þeir eru meira eins og byggingarfulltrúi sem tekur verkið út. Þeir teikna stúdíóið ekki upp fyrir mann en eru samt mjög hjálplegir. Þess utan leitaði ég til margra kollega sem ég þekki erlendis. Ég vissi ekki neitt þegar ég byrjaði en hélt helling. Ég áttaði mig til dæmis ekki á því að ég þyrfti svona svakalega marga hátalara og magnara. Þetta ferli var mjög lærdómsríkt,“ segir Gunnar sem sendi fyrstu fyrirspurnina út til Dolby í nóvember 2016 en þá var hljóðverið enn þá á teikniborðinu.

Sér til halds og trausts hafði Gunnar vin sinn Einar Gíslason, sem er sprenglærður rafeindavirki og rafmagnsiðnfræðingur. „Hann var með mér í eitt og hálft ár að gera og græja,“ segir Gunnar en þess má geta að aðeins tveir bíósalir á landinu eru með sama kerfi, stóru salirnir í Laugarás- og Smárabíói. Sjálfur reynir Gunnar að sjá helstu myndir í þeim sölum, til dæmis tónlistarmyndina Bohemian Rhapsody. „Ég naut þess í botn. Alveg geggjað hljóð.“ 

Gunnar í setustofunni, þar sem úir og grúir af hljóðfærum …
Gunnar í setustofunni, þar sem úir og grúir af hljóðfærum og öðrum gersemum. Árni Sæberg


Náði gegnum nálaraugað

Nú í desember kom sérfræðingur frá Dolby til landsins til að taka hljóðverið út með vottun í huga. Hann var settur í vinnusóttkví á staðnum og skoðaði hljóðverið í hólf og gólf. Fór til dæmis með vindsæng um allan sal til að finna bergmál. Á endanum náði hljóðverið gegnum nálaraugað og hlaut vottun. „Hann var mjög hrifinn,“ segir Gunnar

Hljóðver Gunnars er það fyrsta á Íslandi sem hlýtur Dolby Atmos-vottun og aðeins það sjöunda á Norðurlöndunum; Svíar eiga til dæmis ekki neitt slíkt hljóðver. „Ég held að ég geti líka fullyrt að þetta sé eina vottaða stúdíóið í einkaeigu í heiminum. Ætli það sé ekki bara gamla góða íslenska brjálæðið,“ segir hann.

Yrði rosaleg vitleysa

Að sögn Gunnars skiptir vottunin öllu máli þegar kemur að því að kynna og auglýsa hljóðverið til leigu. „Þegar maður er kominn með vottunina fær maður ekki lengur faglegar fyrirspurnir um tæki og tól frá útlendingum, heldur bara hvort líkamsrækt sé í grenndinni eða góðir veitingastaðir.“ 

Gunnar tekur upp í minna hljóðverinu í Melahvarfi.
Gunnar tekur upp í minna hljóðverinu í Melahvarfi. Árni Sæberg


Þrír staðlar eru af Dolby Atmos-hljóðverum. Í fyrsta lagi lítil hljóðver sem Dolby tekur ekki sérstaklega út. Þar má hljóðblanda fyrir sjónvarp og Blu Ray-diska. Í öðru lagi hljóðver eins og Gunnars, sem eru að lágmarki 45 fermetrar og 150 rúmmetrar. Í þeim má hljóðblanda kvikmyndir. Í þriðja lagi hljóðver sem eru að lágmarki 75 fermetrar og og 300 rúmmetrar með mjög stórt tjald. Að sögn Gunnars eru mjög fá slík hljóðver í heiminum, varla fleiri en þrjátíu til fjörutíu.

– Er það næsta skref hjá þér?

„Sko,“ svarar hann sposkur. „Núna er þetta komið. Ég get þó viðurkennt að ég er búinn að fylla út excel-skjalið frá Dolby fyrir stóra stúdíóið. Það yrði samt rosaleg vitleysa.“

Gunnar segir að hljóðverið sé mikil bylting fyrir hljóðvinnslu á Íslandi en fyrsta kvikmyndin sem var hljóðblönduð þar var Agnes Joy eftir Silju Hauksdóttur. Hann veit ekki hvenær fyrsta myndin verður hljóðblönduð í Dolby Atmos en helst þyrfti það að vera brjáluð hasarmynd. „Það yrðu að vera sprengingar, eltingarleikur og læti til að fá sem mest út úr græjunum.“

Nánar er rætt við Gunnar Árnason í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert