Konur með 16,4% hærri laun en karlar

8-10% vagnstjóra hjá Strætó eru konur.
8-10% vagnstjóra hjá Strætó eru konur.

Konur hjá Strætó bs. fá um 16,4% hærri laun heldur en karlmenn að meðaltali. Þetta helgast af því að konur eru í meirihluta þegar kemur að sérhæfðari stjórnunar- og sérfræðistörfum í byggðasamlaginu. Þegar búið er að taka saman breytur á borð við menntun og ábyrgð í starfi er óútskýrður launamunur 0,3% konunum í hag. 

Þetta kemur fram í jafnlaunaúttekt sem Strætó bs. gerði á síðasta ári. Fram kemur í svari við fyrirspurn mbl.is að kynjaskipting í fyrirtækinu sé þannig að þar starfi um 80% karlar en 20% konur. 

Konurnar í stjórnunar- og sérfræðistörfum

„Skýringin er sú að það eru fleiri konur sem eru með meiri menntun, meiri ábyrgð í starfi og sinna frekar stjórnunar- og sérfræðistörfum en karlar. Hins vegar eru fleiri karlar sem sinna framlínustörfum, s.s. vagnstjórastarfi og störfum á verkstæði. Ábyrgðarstörf (stjórnunar- og sérfræðistörf) eru hærra metin,“ segir í skriflegu svari Sigríðar Harðardóttur sviðsstjóra mannauðs- og gæðasviðs hjá Strætó bs. Hún segir að konur sinni sérfræði- og stjórnunarstöfum í um 67% tilvika hjá fyrirtækinu en karlar í um 33% tilvika.   

Óútskýrður launamunur reyndist 0,3% konunum í hag.
Óútskýrður launamunur reyndist 0,3% konunum í hag. Arnaldur Halldórsson

Ennfremur kemur fram að í launagreiningu séu skoðaðir ýmsir þættir innan hvers starfshóps og greint hvort einhver munur sé þar á körlum og konum til að uppfylla markmið jafnlaunavottunar. „Þá erum við t.d. að skoða yfirvinnu, hvort það séu karlar frekar en konur sem taka yfirvinnu þegar hún býðst og fleira í þessum dúr sem hugsanlega gæti haft áhrif á laun,“ segir í svari Sigríðar. 

Konur 8-10% vagnstjóra 

Sigríður segir að fyrirtækið vilji stuðla að fleiri konum í hefðbundin karlastörf hjá fyrirtækinu. Fyrsta konan hafi verið ráðin á verkstæði fyrirtækisins í fyrra. Hlutfall kvenna í vagnstjórastörfum hjá fyrirtækinu er nú 8-10%. 

Fram kemur að Strætó fékk jafnlaunavottun í október 2019 og uppfyllti þar með jafnlaunastaðalinn IST85. Eftirlitsúttekt var gerð í september 2020 þar sem Strætó uppfyllti kröfur staðalsins. Næsta eftirlitsúttekt verður í september 2021.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka