Dagur B. Eggertsson var að vonum sleginn eftir að upp komst að skotið hafi verið úr byssu í gegnum hurð á bíl fjölskyldu hans. Í viðtali við RÚV segir Dagur að hann vilji ekki trúa því að slíkar árásir séu orðið að því sem getur talist eðlilegt í íslenskum stjórnmálum. Spurður að því hvort hann hafi íhugað framtíð sína í pólitík sagði Dagur að hann hafi hugsað ýmislegt síðustu daga.
„Ég var við vinnu hér seinnipartinn á laugardag og konan mín sækir mig, við vorum á leið í matarboð. Ég er að stíga inn í bílinn og tek ég eftir gati á miðri farþegahurðinni sem vakti spurningar. Þannig að ég setti mig í samband við lögreglu sem brást mjög hratt og fagmannlega við, tók bílinn til rannsóknar og við fengum svo þær upplýsingar á sunnudeginum að það höfðu fundist kúlur inni í hurðinni,“ sagði Dagur við fréttamann RÚV.
Þegar borgarstjóra varð ljóst að gat á bíl hans lét hann kollega sína í borgarstjórn vita, bæði oddvita í meirihluta og í minnihluta. Dagur segir að allflestir hafi sent honum kveðjur með hlýhug. Spurður að því hvort hann meinti þá að einhverjir úr borgarstjórn hefðu ekki vandað honum kveðjurnar vildi Dagur ekki hafa fleiri orð um það.
Dagur segir að árásin megi verða tilefni til þess að ræða hvernig Íslendingar vilji að þjóðfélagsumræða sé. Hann vonar að árásin sé ekki til marks um nýja tíma í pólitík á Íslandi þar sem fólk í opinberum stöðum geti átt von á álíka árásum og hann varð fyrir. Blað sé brotið með atburðinum.
„Hættan er alltaf sú að línan færi alltaf aðeins lengra... og í mínu hjarta þá er komið hingað og ekki lengra.”
Dagur segir að málið sé núna til rannsóknar lögreglu og að hann vilji nú fá frið til þess að slá skjóli um fjölskyldu sína.
Borgarstjóri sá sér ekki fært að veita mbl.is viðtal vegna málsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir blaðamanna.