Mikill áhugi fjárfesta á skuldabréfum ríkissjóðs

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkissjóður Íslands gaf út skuldabréf í dag að fjárhæð 750 milljónir evra, andvirði 117 milljarða króna, og bera skuldabréfin 0% fasta vexti. Bréfin voru gefin út til 7 ára á ávöxtunarkröfunni 0,117%. Þetta er tilkynnt á vef stjórnarráðsins.

Þar segir jafnframt að fjárfestar hafi sýnt útgáfu skuldabréfanna mikinn áhuga og að eftirspurn hafi numið tæplega 3,5 milljörðum evra eða rúmlega fjórfaldri upphæð útgáfunnar. Í hópi fjárfesta eru bankar, tryggingafélög og aðrir fagfjárfestar, aðallega frá Norður-Evrópu. Citibank, Barclays og Deutsche Bank önnuðust útgáfu bréfanna.

„Viðbrögð fjárfesta eru til marks um greiðan aðgang ríkissjóðs að alþjóðamörkuðum og endurspegla traust á styrk okkar og getu til þess að mæta efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldursins. Með þessari lántöku treystir ríkissjóður enn frekar stöðu sína til lengri tíma, en lausafjárstaða ríkissjóðs er mjög góð um þessar mundir,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert