Fordæmir ógnanir og ofbeldi gegn stjórnmálafólki

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meðal þess besta við að búa á Íslandi er hversu friðsælt samfélag okkar hefur verið. Lengst af hafa kjörnir fulltrúar og leiðtogar í athafnalífi getað lifað lífi sínu án ótta um líkamlegan skaða. Þannig viljum við hafa það, segir í yfirlýsingu frá stjórn Viðreisnar sem fordæmir hvers konar ógnanir og ofbeldi gegn stjórnmálafólki.

Í yfirlýsingunni kemur fram að skotárás sem gerð hafi verið á bifreið fjölskyldu borgarstjóra og skrifstofur stjórnmálaflokka séu hörmulegar fréttir.

Það er gott að sjá að yfirvöld taka árásina á bifreið fjölskyldu borgarstjóra föstum tökum. En vandamálið endar ekki þar. Umræðumenning á opinberum vettvangi fer síharðnandi og verður æ ofbeldisfyllri. Við þekkjum það úr stjórnmálalífi annarra lýðræðisríkja að ofbeldi í orði getur fljótt breyst í ofbeldi á borði. Við þurfum að geta verið ósammála um leiðir án þess að það skipti okkur í lið vina og óvina, okkur og ykkur. Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra að stemma stigu við hatursfullri umræðu, strax og hennar verður vart,“ segir í yfirlýsingunni.

Verja þurfi grunnstoðir lýðræðisins, sem sé þátttaka í hvers konar stjórnmálastarfi, frjáls frá ógnunum, hótunum og ofbeldi.

Stjórn Viðreisnar fordæmir hvers konar ógnanir og ofbeldi gegn stjórnmálafólki. Það er von okkar að viðbrögð samfélagsins alls verði með þeim hætti að árásum þessum linni þegar í stað,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert