Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að megi gleðjast yfir áframhaldandi tíðindum um fá kórónuveirusmit innanlands. Sem fyrr beri þó að varast að gleyma sér enda geti veiran verið fljót að refsa ef landsmenn slaka á persónubundnum sóttvörnum.
„Við gleðjumst yfir þessu en á sama tíma minnum við á að staðan sé viðkvæm og getur breyst hratt. Við verðum því enn að passa okkur. Svo gleðjumst við líka yfir því að vera orðin græn á korti sóttvarnastofnunar Evrópu,“ segir Rögnvaldur við mbl.is.
Rögnvaldur segist þó hafa áhyggjur af því að landsmenn gleymi sér og slaki á í persónubundnum sóttvörnum, nú þegar fréttir berast af lágum smittölum og þankagangi sóttvarnalæknis um mögulega tilslakanir.
„Jú, við höfum auðvitað áhyggjur af því, svona í ljósi reynslunnar. Fólk er auðvitað sífellt að lesa sjálft í þessar tölur sem birtast á degi hverjum og fer þá kannski að draga eigin ályktanir um hversu vel þurfi að passa sig. Við höfum sannarlega áhyggjur af þessu.
En þá er kannski gott fyrir okkur að gleðjast bara yfir hinu litla. Við Íslendingar getum farið út að hreyfa okkur, farið í vinnuna, út að borða og margt fleira. Þetta er ekki eitthvað sem er hægt í mörgum löndum í kringum okkur.“
Spurður fregna um rannsókn lögreglunnar á meintu sóttvarnabroti í miðbæ Reykjavíkur í vikunni, segir Rögnvaldur að hann reikni með að hún sé hafin. Áfengi var haft við hönd en skipuleggjendur báru fyrir sig að um íþróttaæfingu væri að ræða.
„Það er auðvitað lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sem hefur það á sínu borði en ég reikna nú með að rannsókn sé hafin, já.“