Einn í haldi grunaður um aðild að skotárásum

Skotgöt á skrifstofu Samfylkingarinnar.
Skotgöt á skrifstofu Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með einn í haldi út af skotárásum á húsnæði Samfylkingarinnar og bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Maðurinn er með réttarstöðu grunaðs vegna málsins.

Þetta staðfestir Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn við mbl.is.

„Það er mikill þungi í þessari rannsókn en eins og staðan er núna getum við ekki sagt meira,“ segir hann.

Ásgeir Þór segir að árásirnar tvær séu rannsakaðar í sameiningu. Hann getur ekki sagt hvenær maðurinn var handtekinn eða hvort lagt hafi verið hald á skotvopn á heimili hans, þar af tvo riffla, eins og kemur fram í frétt Vísis um málið. Þar herma heimildir að maðurinn hafi lengi haft horn í síðu Samfylkingarinnar.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að maðurinn sé á fimmtugsaldri. „Málið er litið mjög alvarlegum augum og hefur rannsókn þess verið í algjörum forgangi hjá embættinu,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert