Hætta að senda út fundi borgarstjórnar

Fundir borgarstjórnar verða ekki lengur sendir út í útvarpi heldur …
Fundir borgarstjórnar verða ekki lengur sendir út í útvarpi heldur verða þeir aðeins aðgengilegir á netinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsætisnefnd Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum á föstudaginn, 29. janúar, að hætta útvarpsútsendingum borgarstjórnafunda. Þrír fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata samþykktu tillögu Pawel Bartoszek, forseta borgarstjórnar, um efnið gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Kostnaður við hverja útsendingu er að meðaltali 180 þúsund krónur og talið er að það muni spara um tvær milljónir króna árlega að hætta að senda út fundina. Útsendingum verður hætt eftir sumarleyfi borgarstjórnar 2021.

Í bókun fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata segir að hægt sé að fylgjast með borgarstjórnarfundum á netinu auk þess sem hljóðrásin er send út sér. Því þykir rétt í ljósi kostnaðar við útvarpsútsendingar að hætta með þær.

Auðvelt að spara annars staðar en á kostnað lýðræðisins

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun þar sem fram kom að samkvæmt sveitarstjórnarlögum beri að senda út borgarstjórnarfundi í heyranda hljóði.

„Í ljósi þess er mikilvægt að gott aðgengi sé að útsendingum borgarstjórnarfundanna og nýttar séu fjölbreyttar leiðir til þess. Ef eitthvað er ættum við að leita fleiri leiða til að auka aðgengi að fundunum en að skrúfa fyrir útvarpssendingar. Í því sambandi mætti nefna Spotify o.fl. veitur og jafnvel sjónvarpsútsendingar frá fundunum. Lýðræðið kostar og hér er um tvær milljónir að ræða sem auðveldlega hefði mátt spara annars staðar en á kostnað lýðræðisins,“ segir enn fremur í bókuninni.

Þá lagði áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands fram svohljóðandi bókun, sem áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins tók undir: „Það kann að vera að fólk sem hafi ekki aðgang að tölvu og neti styðjist við útvarpssendingar til þess að hlusta á útsendingar af borgarstjórnarfundi. Mikilvægt er að kanna umfang þess áður en farið er í að skoða að hætta við útvarpssendingar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert