Þeir lyfjaframleiðendur sem íslensk stjórnvöld hafa samið við um kaup á bóluefnum gegn Covid-19 vilja að efni samninganna fari leynt. Það er mat ráðuneytisins að opinberun samninganna geti spillt samskiptum íslenska ríkisins við lyfjaframleiðendur og aðra viðsemjendur, sérstaklega þar sem afhending bóluefna hefur ekki farið fram. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skriflegu svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is sem send var 21. janúar síðastliðinn.
Þar var t.a.m. spurt hvort fjölmiðlar gætu fengið aðgang að umræddum samningum og hvort það væri almennt stefna ráðuneytisins að halda samningum við lyfjaframleiðendur leyndum. Mbl.is var synjað um aðgang að samningunum. Ekki fékkst svar við spurningu um almenna stefnu í þessum efnum.
Samningarnir, sem eru átta talsins, falla undir takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna annars vegar og almannahagsmuna hins vegar.
Eins og áður hefur komið fram var Gunnari Braga Sveinssyni, þingmanni Miðflokksins, neitað um aðgang að bóluefnasamningum þegar hann leitaði eftir því um miðjan janúar.
Ástæðan fyrir því að samningarnir falla undir takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna er, að sögn ráðuneytisins, sú að þeir innihalda upplýsingar um mikilvæga og virka fjárhagslega og viðskiptahagsmuni samningsaðila ráðuneytisins.
„Fyrir liggur sú viljaafstaða lyfjaframleiðenda að efni samninganna fari leynt,“ segir í umræddu svari.
„Ráðuneytið hefur undirritað átta samninga sem gerðir eru á grundvelli samninga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur. Annars vegar er um að ræða þríhliða samninga við Svíþjóð og viðkomandi lyfjaframleiðanda um afhendingu bóluefnis, ábyrgð o.fl. og svo hins vegar samninga við Svíþjóð um greiðslur vegna kaupa á bóluefni,“ segir í svarinu um þá samninga sem undirritaðir hafa verið.
Samkvæmt ákvæði um takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir.
„Meðal markmiða ákvæðisins er að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt trausti í skiptum íslenskra stjórnvalda við erlend ríki, þar á meðal innan þeirra fjölþjóðlegu stofnana sem Ísland er aðili að svo sem EES,“ segir í svarinu.
Hvorki aðildarríki Evrópusambandsins né Noregur hafa afhent sambærilega samninga sem ríkin hafa gert við lyfjaframleiðendur um kaup á bóluefni, samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað.
„Það er mat ráðuneytisins að það geti spillt samskiptum við lyfjaframleiðendur og aðra viðsemjendur íslenska ríkisins, ef aðgangur verður veittur að umbeðnum samningnum, einkum þar sem afhending á bóluefnum hefur ekki farið fram. Slíkt gæti haft verulega neikvæð áhrif á þá almannahagsmuni sem felast í því að fá bóluefni við COVID-19 til Íslands sem fyrst og fyrir sem flesta,“ segir í svarinu.