Lilja segir ákvörðun Disney óboðlega

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, er ósátt með skort …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, er ósátt með skort á íslensku á streymisveitunni Disney+. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur sent forstjóra stórfyrirtækisins Disney, Bob Chapek, bréf vegna þeirrar ákvörðunar að bjóða ekki upp á íslenskan texta eða talsetningu á efni streymisveitunnar Disney+.

„Það er óboðlegt að stórveldi eins og Disney nýti ekki íslenskar talsetningar og þýðingar á streymisveitunni,“ segir Lilja á facebooksíðu sinni.

Jóhannes Haukur Jóhannesson leikari vakti athygli á skortinum á íslensku á Disney+ í tísti á Twitter um helgina. Benti hann á að íslenskir leikarar hefðu talsett efni Disney í áratugi og fyrirtækið ætti bæði talsetninguna og textana og væri því í lófa lagið að gera það aðgengilegt.

Kjarninn í sjálfsmynd þjóðar

Í bréfinu til forstjóra Disney hvetur Lilja fyrirtækið til að endurskoða þetta og bendir á að íslenska tungumálið sé kjarninn í menningu þjóðar og sjálfsmynd.

„Við leggjum hart að okkur við að viðhalda því, sérstaklega meðal barna og ungmenna sem daglega verða fyrir miklum áhrifum frá öðrum tungumálum, aðallega ensku. Góð móðurmálskunnátta er gríðarlega mikilvæg fyrir persónuþroska barna, sjálfsmynd þeirra, menntun og getu til að móta hugsanir. Hún er nauðsynleg íslenskri æsku og framtíð þeirra,“ skrifar Lilja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert